Þeir sem hafa fengið örvunarskammt af covid-19 bóluefni eru þrettán sinnum líklegri til að smitast ekki af kórónuveirunni heldur en þeir sem óbólusettir eru. Líkurnar á smiti er einnig mun minni heldur en hjá þeim sem hafa fengið tvær sprautur. Hér á landi hafa 114 þúsund fengið örvunarskammtinn.
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir fagnar því að kúrva núverandi bylgju í faraldrinum virðist var að mjakast niður á við. „Mér finnst áfram að við séum að mjaka okkur niður kúrvuna og ég vona að það haldi áfram. Þetta gengur hægt. Við megum búast við fleiri tilfellum eftir helgi eins og áður. Það kemur bara í ljós,“ sagði Þórólfur í samtali við Morgunblaðið.
Það er nú í höndum nýs heilbrigðisráðherra, Willum Þór Willumssonar, að taka afstöðu til nýs minnisblaðs frá Þórólfi um sóttvarnaraðgerðir innanlands.
Á covid.is hafa verið birt ný gröf sem sýna fram á þennan verulega mun á nýgengi smita eftir bólusetningu og hjá þeim óbólusettu.