Neytendastofa vekur athygli á innköllun á andlitsgrímum sem hafa meðal annars verið seldar í verslunum Krambúðarinnar, Nettó, Kjörbúðarinnar og Iceland. Ekki er vitað hver framleiðandi vörunnar er en fyrir ofan strikamerki á umbúðum stendur „3 M 100 maskar“. Framan á umbúðum stendur jafnframt „Disposable face masks two ply 100 pieces“. Voru grímurnar seldar í stykkjatali.
Neytendastofu bárust ábendingar um að grímurnar væru ekki öruggar til notkunar fyrir neytendur sem vörn. Eftir skoðun á grímunum sjálfum og umbúðum lagði stofnunin strax tímabundið sölubann á grímurnar. Í framhaldi af því ákvað Samkaup hf., rekstraraðili framangreindra verslana, að innkalla grímurnar. Ástæðan fyrir innkölluninni er að andlitsgríman veitir neytendum litla sem enga vörn.

Samkaup er ekki innflutningsaðili þessara gríma og hafa þær verið seldar á fleiri sölustöðum, meðal annars í Lyfju, Lyf og heilsu, Apótekaranum og Apótekinu.
Neytendastofa hvetur alla sem hafa keypt andlitsgrímurnar að vera ekki að nota þær heldur að skila þeim á þann sölustað sem varan var keypt eða henda þeim.
Ert þú með ábendingu um neytendamál? Sendu póst á [email protected].