Flugfélagið Ernir býður farþegum sínum flug á hálfvirði í tilefni af stórafmæli. Félagið var stofnað fyrior hálfri öld. Af því tilefni gefur félagið fimmtíu prósenta afslátt af öllum fargjöldum, bóki viðskiptavinir á netinu.
Tilboðið gildir út ágústmánuð og eru áfangastaðirnir eftirtaldir: Vestmannaeyjar, Höfn í Hornafirði, Húsavík, Bíldudalur og Gjögur.
Margt gert á fimmtíu árum
Flugfélagið Ernir á sér áhugaverða sögu og skal hér stiklað á stóru. Það var stofnað á Ísafirði árið 1970 af Herði Guðmundssyni. Á vef flugfélagsins segir svo frá:
Félagið varð fljótlega mikilvægt í samgöngu- og öryggismálum Vestfirðinga sem lengi bjuggu við erfiðar vegasamgöngur. Skömmu eftir að Flugfélagið Ernir hóf starfsemi sína á Vestfjörðum var komið á fót póstflugi milli allra helstu bæja og þéttbýlisstaða í fjórðungnum. Auk póstáætlunarflugsins stundaði félagið sjúkraflug og stundaði það af krafti um langt árabil, einkum á Vestfjörðum, Norðvesturlandi og á norðanverðu Snæfellsnesi.
Hér eru nokkur mikilvæg ártöl í sögu félagsins en söguna í lengri útgáfu má lesa á vefsíðu þess:
1970 Flugfélagið Ernir stofnað á Ísafirði
1988 Áætlunarflug hefst á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar
1989 Flug fyrir Rauða Krossinn í Kenía og Suður-Súdan
1991 Flugfélagið flýgur með birgðir og hjálpargögn í Mósambík
1994 Birgðaflug í Angóla á vegum Rauða Krossins
1997 Þá flugu Ernir, bók um flugfélagið gefin út
2003 Skrifstofur félagsins færðar frá Ísafirði til Reykjavíkur
2007 Ernir hefur áætlunarflug til Bíldudals, Gjögurs, Sauðárkróks og Hafnar í Hornafirði
2010 Flugfélagið Ernir fagnar 40 ára afmæli
2012 Áætlunarflug hefst á milli Reykjavíkur og Húsavikur