Af þeim sem tekið hafa hraðpróf hjá Heilsugæslunni síðan 1. nóvember hafa 690 greinst jákvæðir. Það eru 0,5 prósent þeirra sýna sem tekin hafa verið í hraðprófunum. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur tekið yfir 141.000 sýni í nóvember og desember. Þessu er greint frá á RÚV í dag.
Frá 1. desember hafa 211 fengið jákvæða niðurstöðu úr hraðprófum hjá Heilsugæslunni á Suðurlandsbraut.
Jákvætt svar í hraðprófi telst ekki sem staðfest smit. Fólk sem greinist með jákvætt hraðpróf er sent í svokallað PCR próf í kjölfarið til staðfestingar.
Stöðugur straumur hefur verið í hraðprófin síðan farið var að bjóða upp á þau. Var það gert vegna gildandi sóttvarnarreglna, þar sem skylda er að gangast undir hraðpróf ef sækja á viðburð þar sem fleiri en 50 koma saman. Hraðpróf mega ekki vera meira en tveggja sólarhringa gömul þegar farið er á viðburðinn og vottorði framvísað.
Síðastliðinn föstudag fór metfjöldi í hraðpróf, eða 7.259 á vegum heilsugæslunnar. Tvö einkafyrirtæki annast sömuleiðis hraðprófin. Á heilsugæslunni greindust 14 einstaklingar jákvæðir í hraðprófum á föstudag. Í gær, laugardag, fóru 4.677 í hraðpróf og þá fengu líka 14 jákvæða niðurstöðu.
Á vef RÚV gefur að líta skýringarmynd þar sem meðal annars er farið yfir fjölda sýna og hlutfall jákvæðra sýna. Þar má sjá að hlutfall jákvæðra sýna í desember er lægra en það var í nóvember. Hlutfall jákvæðra sýna úr hraðprófum er um 0,3 prósent það sem af er desembermánuði, á meðan það var nær 0,7 prósentum í nóvember.
Heildarfjöldi hraðprófa hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins var 71.357 í nóvember, á meðan fjöldinn er kominn upp í 69.825 það sem af er desembermánuði.