Undanfarnar vikur hefur mikil umræða átt sér stað í samfélaginu um að börn í grunnskólum landsins hafi í auknum mæli farið í margra vikna frí með foreldrum sínum á skólatíma. Telja margir kennarar og skólastjórnendur að um nýtt vandamál sé að ræða og þurfi að takast á við það sem fyrst.
„Nám er samstarfsverkefni heimilis og skóla og það á einnig við þegar kemur að þætti eins og fjarveru sem þessari. Sérstaklega þarf að horfa til hver staða hvers einstaklings er og gera allt sem hægt er til að lágmarka það rof sem kemur á námi vegna þessa. Hér á við nám á öllum skólastigum og á öllum aldri, ekkert síður á unglingastigi grunnskólanna eða á framhaldsskólastigi,“ sagði Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands og fyrrverandi skólastjóri, í viðtali við Mannlíf um málið.
Þá hefur verið bent á að í grunnskólalögum er skólastjóra hvers og eins skóla leyft að ákveða allar leyfisveitingar barna án nokkra viðmiða og því getur verið mikill munur á leyfisveitingu hvers og eins skóla.
Mannlíf spurði í gær hvort að leyfa ætti grunnskólabörnum að fara í margra vikna frí á skólatíma. Niðurstaðan var nokkuð afgerandi en aðeins 25% telja að leyfa eigi slík frí meðan tæplega 75% þeirra sem kusu telja að það eigi ekki að gefa grænt ljós á slík leyfi.