Vésteinn Valgarðsson á heldur óvenjulegt málverk.
Það eru líklega fáir Íslendingar sem eiga málverk af Mikhail Gorbachev en Vésteinn Valgarðsson er sennilega sá eini sem á málverk af manninum sem hékk inn í rússneska sendiráðinu. Málverkið komst í hendur Vésteins fyrir tæpum 20 árum en þá hringdi vinur hans og sagði að rússneska sendiráðið hafi verið henda hrúgu af málverkum í ruslið. Vinur hans greip málverkið af Gorbachev og gaf Vésteini það. Það prýðir nú heimili Vésteins.
„Verkið er áreiðanlega málað í Sovétríkjunum og ég hef ekki hugmynd um hver gerði það,“ sagði Vésteinn við Mannlíf um höfund verksins. „Ég giska þó á að þessi málverk hafi verið fjöldaframleidd fyrir bæði sendiráð og alls konar stofnanir og ríkisfyrirtæki. Skemmtilegt er að það vantar valbrána á höfuðið á honum. Þeim hefur ekki þótt hún prýði.“
En er málverkið mikils virði?
„Ég hef ekki látið meta það en í mínum augum er það að sjálfsögðu ómetanlegt.“
„Sendiráð Rússlands henti þessu málverki í ruslagám. Það segir sína sögu,“ sagði Vésteinn um hvort að hann myndi skila málverkinu ef eftir því væri leitað. „En gaman væri að vita hvaða fleiri menningarverðmæti fóru þarna í súginn, og var ekki bjargað. Ég lít svo á að þeir hafi afsalað sér þessu málverki þegar þeir hentu því. Þeir gætu auðvitað gert tilboð í það. Ég gæti alveg hugsað málið ef tilboðið væri nógu höfðinglegt. Persónulega hef ég býsna gaman af að eiga þetta málverk, og oft hafa gestir haft gaman af að sjá það líka.“
„Ég held að Gorbatsjoff hafi trúlega viljað vel, þótt hann hafi verið óraunsær og endað með að sigla í strand. Ég er ekki viss um að hann hefði verið fær um að snúa kúrsi Sovétríkjanna aftur til betri vegar, mig grunar að efnahagurinn hafi verið orðinn of stirður eftir hina köldu hönd Brésnéff, en það er auðvitað engin leið að segja hvað hefði getað gerst,“ sagði Vésteinn um manninn á myndinni.