Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.1 C
Reykjavik

Að auka vellíðan í eigin lífi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ingrid Kuhlman, framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar, lauk nýverið meistaranámi í jákvæðri sálfræði og er með nokkur ráð fyrir fólk til að auka vellíðan í eigin lífi sem er tilvalið í upphafi nýs árs.

„Jákvæð sálfræði sameinar í einn vettvang það sem rannsóknir á jákvæðum og heilbrigðum einstaklingum hafa leitt í ljós,“ segir Ingrid Kuhlman. „Með heitinu er ekki gefið í skyn að aðrar greinar sálfræðinnar séu neikvæðar, síður en svo. Munurinn felst í því að jákvæð sálfræði fæst meira við það sem er í lagi en það sem er í ólagi; leggur áherslu á að fjölga plúsum í stað þess að fækka mínusum.“

Hún segir að jákvæð sálfræði byggi á vísindalegum rannsóknum og færi okkur hagnýtar upplýsingar og gagnreyndar aðferðir til að auka vellíðan. „Það hafa verið þróaðar ýmsar æfingar sem hafa það að markmiði að stuðla að jákvæðum tilfinningum, jákvæðri hegðun og jákvæðum hugsunum og mig langar að nefna fimm mjög góðar aðferðir til að auka vellíðan í eigin lífi og fara inn í nýtt ár með jákvæðni að vopni. Þetta eru æfingar sem fólk getur gert á hverjum degi.

Ein slík æfing heitir „þrír góðir hlutir“. Æfingin felst í því að skrifa niður daglega, í lok dags til dæmis, þrjá góða hluti sem áttu sér stað yfir daginn og hver þáttur viðkomandi var í þeim. Þessi æfing hefur þau áhrif að breyta hugsunum manns þannig að í stað þess að einblína á það sem fór úrskeiðis einblínum við á það sem gekk vel. Það er mikilvægt að skrifa niður hlutdeild manns í því sem gekk vel af því að þar með beinum við athyglinni að því hvernig við getum haft áhrif á daglegar, jákvæðar upplifanir.

„Jákvæð sálfræði fæst meira við það sem er í lagi en það sem er í ólagi; leggur áherslu á að fjölga plúsum í stað þess að fækka mínusum.“

Í öðru lagi eru það „þakklætisæfingar“ en þá skrifar maður niður í lok dags þrennt sem hefur vakið hjá manni þakklæti. Reglubundnar og meðvitaðar þakklætishugsanir geta aukið vellíðan. Þakklæti stuðlar að því að við dveljum við og njótum jákvæðra upplifana og aðstæðna. Það að taka frá tíma til að þakka fyrir það sem maður er ánægður með eykur almenna ánægju með lífið.“

Þrír fyndnir hlutir
Ingrid segir æfinguna „þrír fyndnir hlutir“ henti sér vel, en hún felst í því að skrifa niður daglega þrjá fyndna hluti sem áttu sér stað yfir daginn. „Rannsóknir hafa sýnt að það eru sterk tengsl á milli húmors og lífsánægju. Hugsunin á bak við þetta er að húmor kallar fram gleði og gleði er mikilvægur þáttur í jákvæðum tilfinningum. Við vitum það líka að gleði getur jafnframt veitt vörn gegn neikvæðum tilfinningum og upplifunum. Bros léttir lundina og hefur jákvæð áhrif á líkama og sál.“

Ingrid segir að fjórða æfingin sem hún mæli með og veiti vellíðan sé að gera góðverk; að rétta öðrum hjálparhönd óumbeðið og gefa af sér. „Það er mikilvægt að hafa í huga að þetta þarf ekki að vera stórvægilegt. Það er hugurinn sem skiptir öllu. Það þarf oft lítið til að skapa ómælda gleði, til dæmis að gera tvöfaldan skammt af smákökum og gefa vinum, moka snjó fyrir nágrannann eða bjóða þeim sem er fyrir aftan í röðinni með fáa hluti í innkaupakerrunni að vera á undan. Það að gera góðverk leiðir til þess að við upplifum fleiri jákvæðar tilfinningar eins og hamingju, gleði og ánægju. Með því að gera góðverk getum við gert heiminn örlítið betri.“

- Auglýsing -

Fimmta æfingin snýst um að sýna góðvild í eigin garð. „Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að neikvæð innri gagnrýni getur dregið úr frammistöðu og að það er mikilvægt að mæta neikvæðum tilfinningum með mildi, hlýju og vinsemd. Góðvild í eigin garð samanstendur af þremur þáttum: Í fyrsta lagi að sýna sjálfum sér mildi og skilning og skipta sjálfsgagnrýni út fyrir mildari og jákvæðari orð, í öðru lagi að viðurkenna að þjáning og það að líða illa er sammannleg reynsla og í þriðja lagi að fylgjast með neikvæðum tilfinningum sem vakna hjá manni án þess að ýkja þær, dæma, eða bæla. Þetta snýst í stuttu máli um það að standa með sér í blíðu og stríðu og koma fram við okkur sjálf eins og við myndum koma fram til dæmis við góðan vin.“

Texti / Svava Jónsdóttir
Mynd / Úr einkasafni

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -