Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Að koma nafnlaus fram

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nýfallinn dómur vekur spurningar um það hvernig sætta má trúnað við þolendur og rétt meints geranda til að bera hönd yfir höfuð sér. Eiga þolendur yfirhöfuð þann rétt að stíga nafnlaust fram með ásakanir sínar?

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Atla Rafns Sigurðssonar leikara gegn Leikfélagi Reykjavíkur og Kristínu Eysteinsdóttur leikhússtjóra vekur áleitnar spurningar um MeToo-byltinguna. Undir myllumerkinu #metoo stigu íslenskar konur úr ýmsum atvinnugreinum fram og greindu, nafnlaust, frá kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi. Þeirri spurningu er ósvarað hvort hreyfingunni hafi verið ætlað að tryggja að konur gætu sannarlega stigið fram og sagt frá í skjóli nafnleyndar eða hvort tilgangurinn var að vekja umræðu sem yrði til þess að þær gætu stigið fram undir nafni, án þess að þurfa að óttast um afleiðingarnar.

„Kvörtun eða ábending um einelti, kynferðislega áreitni eða annað ofbeldi á vinnustöðum er alvarlegt eðlis. Þess vegna hafa verið settar ítarlegar reglur um skyldur atvinnurekenda við meðferð slíkra mála,“ segir í dómi héraðsdóms í umræddu máli en það var höfðað af Atla Rafni eftir að honum var sagt upp störfum hjá Borgarleikhúsinu 16. desember 2017. Ástæðan voru ásakanir á hendur leikaranum um kynferðislegt ofbeldi, m.a. frá starfsmönnum leikhússins. LR og Kristín voru dæmd til að greiða Atla Rafni samtals 5,5 milljónir í bætur.

Í dóminum kemur fram að Persónuvernd hefði komist að þeirri niðurstöðu að „móttaka kvartana í trausti trúnaðar og nafnleyndar, meðferð þessara upplýsinga hjá Borgarleikhúsinu og synjun þess að upplýsa stefnanda um nöfn kvartendanna hafi samrýmst lögum um persónuvernd.“ Því hefði leikhússtjóra verið óheimilt að upplýsa stefnanda um hvaða einstaklingar hefðu borið hann sökum. Dómurinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að leikhússtjóra hefði átt að vera ljóst að uppsögnin myndi valda Atla Rafni tjóni.

„Samkvæmt reglunum bar stefndu við meðferð málsins án tvímæla að gæta að hagsmunum hlutaðeigandi starfsmanna og þar með talið að gefa stefnanda kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Að því búnu bar að gera ráðstafanir til að stöðva hegðunina, ef hún átti við rök að styðjast, sem og að koma í veg fyrir að hún endurtæki sig. Til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri bar stefndu að upplýsa stefnanda um það hvers eðlis ásakanirnar væru sem borist höfðu, og enn fremur gefa honum kost á að breyta hegðun ef um slíkt væri að ræða,“ segir í dóminum.

„Samkvæmt reglunum bar stefndu við meðferð málsins án tvímæla að gæta að hagsmunum hlutaðeigandi starfsmanna og þar með talið að gefa stefnanda kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.“

Haft var eftir Kristínu að þeir fjórir einstaklingar sem hefðu starfað í leikhúsinu á þessum tíma og leitað til hennar vegna hegðunar Atla Rafns hefðu sagst upplifa mikinn ótta og vanlíðan við að mæta til vinnu vegna nærveru leikarans. Þeir óttuðust að verða fyrir reiði í samfélaginu og um starfsframa sinn. Dómurinn gefur engar vísbendingar um það hvernig sætta eigi þau sjónarmið sem þarna koma fram; trúnað gagnvart þolendum annars vegar og möguleika meints geranda til að bera hönd fyrir höfuð sér hins vegar.

- Auglýsing -

Eftir að niðurstaða í málinu lá fyrir sagðist lögmaður Atla Rafns í samtali við Fréttablaðið vonast til að það yrði öðrum stjórnendum áminning til framtíðar. Forsvarsmenn Borgarleikhússins ákváðu hins vegar að áfrýja og sögðu í tilkynningu að niðurstaðan „skapaði sértækar skyldur vinnuveitenda gagnvart meintum gerendum umfram þolendur.“ Þá væri nú einnig uppi óvissa um hvort vinnuveitendum væri yfirhöfuð heimilt að taka við kvörtunum í trúnaði og hvernig bregðast ætti við.

Þannig sitja þær spurningar eftir hvort nafnlausar ásakanir hafi eitthvert gildi og hver vilji löggjafans er í þessum efnum.

Nýjar leikreglur?

- Auglýsing -

Við meðferð málsins fyrir dómi sagði Atli Rafn að MeToo-byltingin hefði orðið til þess að nýjar leikgreglur giltu í samfélaginu. Vísir.is hafði eftir leikaranum að honum hefði verið haldið í algjöru myrkri um ásakanirnar sem hefðu orðið til þess að honum var sagt upp. Uppsögnin hefði haft gríðarleg áhrif á hann persónulega og atvinnumöguleikar hans væru nú í „ruslflokki“.

Atli Rafn vildi ekki kannast við þá hegðun sem á hann var borin en sagðist kannast við eina „lygasögu“ sem var meðal þeirra frásagna sem settar voru fram undir merkjum MeToo. Sagan hefði verið á þá leið að hann hefði verið drukkinn við tökur á kvikmynd og stungið tungunni upp í meðleikkonu sína. Hann hefði fengið þau svör frá leikhússtjóra að sagan sú væri ekki ástæða uppsagnarinnar en sjálfur taldi hann söguna örugglega hafa haft áhrif.

Steinunn Ólína.

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir var meðal þeirra sem tjáðu sig opinberlega um málið og sagði MeToo-byltinguna til lítils ef konur gætu nú ekki án ótta og kvíða komið fram undir nafni. „Ef ekki, verður þetta mál aldrei leyst og mannorð Atla Rafns eyðilagt fyrir lífstíð á afar vafasömum forsendum. Sem er ólíðandi og svokallaðri MeToo-byltingu til háðungar,“ sagði hún á Facebook áður en dómur féll.

„Ef ekki, verður þetta mál aldrei leyst og mannorð Atla Rafns eyðilagt fyrir lífstíð…“

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, rithöfundur og baráttukona, notaði hins vegar tækifærið til að gagnrýna dómaframkvæmdina í kynferðisbrotamálum. „Nú eru [Atla Rafni] dæmdar hærri bætur en nokkur nauðgunarbrotaþoli í sögu landsins hefur fengið. Hærri en 17 ára stúlka sem var haldið fanginni og nauðgað heila helgi. Hærri en allir hópnauðgunarþolendur Íslands, líka þær sem smituðust af ólæknandi sjúkdómi við ofbeldið. Hærri en allir sem hafa verið misnotaðir og sviptir æsku sinni. Burtséð frá sekt eða sakleysi einstakra manna er þessi heildarmynd rammskökk.“

Sjá einnig: Atli fær 5,5 milljónir í bætur

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -