Aðalsteinn Jónsson er látinn, 95 ára gamall. Akureyri.net greinir frá þessu.
Aðalsteinn fæddist árið 1928 og ólst upp í Hafnarfirði. Foreldrar hans voru Guðfinna Einarsdóttir og Jón Jónsson.
Eftir að hafa lokið stúdentsprófi í Menntaskólanum í Reykjavík hélt hann til Skotlands þar sem hann lærði efnaverkfræði. Þegar Aðalsteinn kláraði námið flutti hann til landsins árið 1956 og stuttu eftir það var hann ráðinn sem forstjóri Sjafnar. Hann starfaði þar í fjóra áratugi.
Aðalsteinn var mikill íþróttagarpur og stundaði fimleika, handbolta og fótbolta á yngri árum og var í stjórn handknattleiksdeildar KA eftir að hann flutti til Akureyrar. Þá þótti Aðalsteinn góður söngvari og var hluti af karlakórnum Geysi.
Aðalsteinn eignaðist sjö börn og er eftirlifandi eiginkona hans Patricia Ann MacKenzie Jónsson.