Sunnudagur 5. janúar, 2025
-4.2 C
Reykjavik

Aðgerðir lögreglu á Strawberries og horfnu verðmætin: „Í boði var að fara afsíðis í bakherbergi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Árið 2013 sætti kampavínsklúbburinn Strawberries lögreglurannsókn vegna meintrar vændisstarfsemi og mansals. Viðar Már Friðfinnsson, eigandi staðarins, var handtekinn ásamt fjórum öðrum starfsmönnum og staðnum lokað. Húsleitir voru framkvæmdar og lagt hald á umtalsverða fjármuni sem og ýmis önnur verðmæti. Staðnum var endanlega lokað árið 2014 en tveimur árum síðar kærði Viðar Már lögreglu til embættis héraðssaksóknara vegna aðgerðanna. Þegar skattalagabrot Viðars Más var tekið fyrir kom í ljós að þau verðmæti sem höfðu verið gerð upptæk á Strawberries og á heimili hans voru horfin úr hirslum lögreglu.

 

Grunur um milligögnu um sölu vændis

Í frétt RÚV um tálbeituaðgerðir og rassíu lögreglunnar, lokun Strawberries og handtöku ofangreindra fimm aðila frá 26. október árið 2013 segir:

Fimm voru í kvöld úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 8. nóvember í Héraðsdómi Reykjavíkur, eftir að lögregla handtók þá á skemmtistaðnum Strawberries í nótt. Mennirnir eru grunaðir um að hafa haft milligöngu um vændi.

Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að lögreglan hafi í nótt handtekið fjóra starfsmenn og eiganda veitingastaðarins Strawberries. Að auki voru þrír handteknir grunaðir um kaup á vændi. Staðnum hefur verið lokað um óákveðinn tíma í þágu rannsóknar málsins. Einnig var gerð húsleit á öðrum stöðum sem taldir eru tengjast eiganda Strawberries. Grunur leikur á að höfð hafi verið milliganga um sölu vændis á staðnum undanfarna mánuði og jafnvel misseri. 

Auk þeirra sem handteknir voru í nótt var ein kona handtekin grunuð um sölu fíkniefna. Sjö konur voru á staðnum og voru þær yfirheyrðar sem vitni. 

- Auglýsing -

Í tilkynningunni frá lögreglu segir að leyfi staðarins verði endurskoðað í ljósi málsins.

Þegar lögregla lét til skarar skríða hafði starfsemi svokallaðra kampavínsstaða verið töluvert í deiglunni og staðirnir umdeildir. Björk Vilhelmsdóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, hafði til að mynda mælt fyrir þingsályktun um starfsemi staðanna tæpum tveimur vikum fyrr. Tilgangurinn var að koma í veg fyrir rekstur staða sem gerðu út á fáklæddar konur og sölu á þeim í einkarýmum.

 

- Auglýsing -

Blaðamenn rannsaka kampavínsstaði

Nokkrum árum áður en handtökur og rassía lögreglu fór fram á Strawberries, hafði staðnum verið lokað nokkrum sinnum vegna brota á vínveitingalöggjöfinni. Árið 2010 var lögum um starfsemi nektardansstaða breytt en kampavínsklúbbarnir tóku þá að spretta upp í staðinn. Forsvarsmenn staðanna sögðu alla starfsemi þeirra vera innan lagalegra marka.

Blaðamenn Fréttablaðsins heimsóttu tvo þessara staða árið 2013. Í frásögn þeirra sagði meðal annars:

Það var svipað umhorfs inni á VIP-Club og á Crystal. Þar störfuðu nokkrar stúlkur sem kváðust vera frá Slóveníu. Þær höfðu aðeins búið á Íslandi í eina viku en töluðu eilitla ensku. Þær sögðust búa allar saman í lítilli blokkaríbúð og því vera mjög nánar. Ein kvennanna var greinilegur yfirmaður þeirra og virtust konurnar leita til hennar eftir samþykki um næstu skref í samskiptunum. Í boði var að fara afsíðis í bakherbergi. Þar gátu þær veitt heimildarmanni „það sem hann vildi“ án þess að frekari útskýringar fylgdu. Tíu mínútur með stúlku þar kostuðu tuttugu þúsund.

 

Málið fellt niður og eigandi kærir lögreglu

Lögregla sagði aðgerðirnar, þar sem óeinkennisklæddir lögreglumenn beittu sér sem tálbeitur, staðfesta grun um vændisstarfsemi á staðnum. Tveimur árum síðar, árið 2015, lýsti ríkissaksóknari því yfir að málið yrði fellt niður. Það eina sem eftir stóð voru meint skattalagabrot eigandans, Viðars Más, sem ákært var fyrir. Viðar Már kærði síðan lögreglu vegna aðgerðanna á Strawberries árið 2016.

Í umræddri kæru komu meðal annars fram ásakanir um að lögreglumenn hefðu setið að sumbli í tálbeituaðgerðunum, verið drukknir þegar handtökur hófust inni á staðnum eftir lokun og eytt verulegum fjárhæðum, samkvæmt heimildum DV um 1.100 þúsund krónum, í áfengi á staðnum að því er virðist til að reyna að grípa konur við að bjóða þeim kynlífsþjónustu gegn greiðslu,“ segir í frétt DV um málið.

Myndband úr eftirlitsmyndavél staðarins sýndi nokkra óeinkennisklædda lögreglumenn sitja og drekka mikið áfengi í félagsskap stúlkna í nokkrar klukkustundir. Í rannsóknargögnum lögreglu hafði komið fram að lögreglumönnunum hefði verið boðin kynlífsþjónusta gegn greiðslu.

„Mennirnir sjást panta sér og greiða fyrir fjölmarga bjóra og drekka þá. En ekki aðeins bjór, heldur í að minnsta kosti tvö skipti sjást mennirnir, sem fullyrt er að séu lögreglumenn, fá sér eitthvað sem líklega er koníak eða viskí í glas. Sjást þeir velta glasinu um í lófanum, þefa af því og drekka í botn. Að minnsta kosti einn mannanna, virðist síðar vera orðinn áberandi ölvaður við barinn.“ (Úr frétt DV 24. mars 2017)

Skjáskot: DV

Íslenska ríkið dæmt brotlegt gagnvart dyraverði

Árið 2017 var íslenska ríkið svo dæmt til að greiða fyrrverandi dyraverði á Strawberries 800 þúsund krónur í miskabætur vegna gæsluvarðhalds sem hann sætti í tengslum við aðgerðir lögreglu.

Í frétt DV frá 2017 um aðgerðirnar segir ennfremur:

Annar lögreglumannanna er með bjórflösku í hönd þegar þeir ráðfæra sig hvor við annan, og miðað við það sem síðar gerist eru þeir að skipuleggja handtökuaðgerðir. Lögreglumaðurinn með bjórinn í hönd, fær sér síðan gúlsopa, leggur flöskuna á barborðið og virðist líta eftir félögum sínum sem von er á. Eftir stutta stund snýr dyravörðurinn aftur í mynd eftir að hafa brugðið sér frá, en þá er annar lögreglumannanna að handtaka barþjón við barinn og dyravörðurinn athugar málið. 

Þá vindur sér upp að honum hinn lögreglumaðurinn sem nýbúinn var að leggja frá sér bjórflöskuna, grípur í frakka dyravarðarins sem bakkar. Einhver orðaskipti verða þeirra á milli en dyravörðurinn virðist spakur og lítt ógnandi. Af myndbandinu verður ekki annað ráðið en að lögreglumaðurinn keyri dyravörðinn sem var að hörfa aftur á bak í jörðina, með þeim afleiðingum að hann fellur harkalega aftur fyrir sig á gólfið af nokkru afli. Lendir meðal annars illa á litlu sviði sem þar er.

 

Verðmætin horfin úr hirslu lögreglu

Þegar meint skattalagabrot Viðars Más voru tekin fyrir, kom í ljós að verðmæti sem höfðu verið handlögð við húsleit, bæði á kampavínsklúbbnum og á heimili hans, voru horfin úr hirslum lögreglu. Samkvæmt Viðari Má og lögmanni hans voru margvísleg verðmæti handlögð, meðal annars nokkur Rolex-armbandsúr, bindisnælur, hringar, hálsmen, annað verðmætt skart, erfðagripir og nokkuð af reiðufé; bæði evrur og dollarar. Samkvæmt heimildum DV á þessum tíma hlupu verðmætin á mörgum milljónum króna.

Hvarf verðmætanna kom í ljós þegar lögregla krafðist þess að munirnir, auk fasteigna og annarra stærri eigna, yrðu gerðir upptækir í skattamáli Viðars Más. Þegar málið var tekið fyrir kom hins vegar í ljós að saksóknari hafði fallið frá þeirri kröfu. Þegar málið var skoðað nánar fékkst það loks staðfest að ástæðan hafði verið sú að umræddir munir voru allir horfnir.

Viðar Már kærði bæði þjófnað á eigum sínum og framgöngu lögreglumanna við aðgerðir á staðnum, til héraðssaksóknara. Hvorug kæran leiddi til ákæru. Viðar Már var sjálfur dæmdur í tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 242 milljónir króna í sekt, fyrir skattalagabrot.

„Það hafðist ekki uppi á þeim sem mögulega bar ábyrgð á því að þessir hlutir hurfu. Þeirri rannsókn var því hætt,“ sagði Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari, í samtali við Vísi árið 2018. Aðspurður hvort það væri ásættanleg niðurstaða sagði Ólafur þetta vissulega bagalegt.

 

Heimildir:

DV – „Strawberries-rassían: Myndband sýnir lögreglumenn þamba áfengi“

Vísir – „Selskapur kvenna til sölu fyrir kampavín“, „Kampavínsklúbbum lokað fyrir fullt og allt“, „Óupplýstur þjófnaður úr hirslu lögreglu“

RÚV – „Fimm í varðhald og Strawberries lokað“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -