Beiðni um aðstoð sjálfboðaliða við leit að svartri labradortík í nágrenni við Hafravatn hefur verið afturkölluð. Aðstæður á svæðinu þykja of hættulegar fyrir aðra en vana leitarmenn.
Eins og Mannlíf sagði frá í gær er nú leitað að svartri labradortík sem féll í straumharða Seljadalsá í fyrrakvöld. Tíkin barst með straumnum í ánni yfir í Hafravatn þar sem hún hvarf síðan undir ísinn. Hún hefur ekki sést síðan og ekki er vitað hvort hún hafi komist upp úr vatninu annarsstaðar eða ekki.
„Eftir að tvær úr Hundasveitinni fóru á staðinn og ræddu við sérfræðinga frá Hjálparsveit skáta Kópavogi, sérhæfða í svona aðstæðum, þá þurfum við að afturkalla hjálparbeiðni sjálfboðaliða út af hættulegum aðstæðum,“ segir í tilkynningu frá Dýrfinnu, samtökum sem aðstoða við leit að týndum gæludýrum. „Hjálparsveit skáta í Kópavogi ætlar að reyna að koma aftur á morgun og meta þetta betur.“