Föstudagur 10. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Aðstoðarmaður Jóns: „Fyrir tíu árum sóttu 118 einstaklingar um vernd, en í ár 5.000“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sjálfstæðismaðurinn Ingvar Smári Birgisson segist á Facebook ekkert botna í umræðunni á Íslandi hvað varðar útlendingamál. Hann segir Ísland taka á móti fleiri flóttamönnum en öll Norðurlöndin og einnig sé löggjöfin opnari hér. Þetta þýði meðal annars að á einungis tíu árum hafa umsóknir um vernd farið frá 118 á ári, í nærri fimm þúsund. Ingvar tók nýverið við sem aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar innanríkisráðherra, en gagnrýni á útlendingastefnu ríkisstjórnarinnar hefur mikið til beinst að honum.

„Ég er ekki einn um að finnast umræðan um útlendingamál hafa verið furðuleg á Íslandi sl. vikur og mánuði. Lítil dýpt hefur verið í umræðunni, hvað þá yfirvegun. Það er vonandi að við finnum þessum málaflokki málefnalegan farveg og höfum í huga að upplýst umræða í dag kemur í veg fyrir öfga framtíðarinnar,“ segir Ingvar.

„Fyrir tíu árum sóttu 118 einstaklingar um alþjóðlega vernd en í ár munu u.þ.b. 5.000 umsóknir berast. Málaflokkurinn hefur því ekki þróast á liðnum áratugi heldur beinlínis stökkbreyst. Frá árinu 2019 höfum við tekið hlutfallslega á móti fleiri umsækjendum en öll Norðurlöndin og erum með opnari löggjöf en þau í málaflokknum. Þannig það er ekki hægt að halda því fram að Ísland sé með fríspil hvað málaflokkinn varðar sökum landfræðilegrar stöðu. Verndarkerfinu, ólíkt innflytjendakerfinu almennt, fylgja alls kyns félagslegar skyldur, svo sem um húsnæði, framfærslu, heilbrigðisþjónustu o.s.frv. Það er því alveg eðlilegt og líklega nauðsynlegt að hér eigi sér stað umræða um þolmörk félagslega kerfisins og hvernig best sé að takast á við þessa áskorun.“

Ingvar heldur áfram og segir að það yrði engum til góðs ef ráðherra færi að skipta sér af löggæslu- og dómsmálum. „Annað er að þessi málaflokkur á það sameiginlegt með löggæslu- og dómsmálum að vera tiltölulega sjálfstæður frá áhrifum ráðherra. Ráðherra skiptir sér ekki af einstökum málum og í tilviki útlendingamála starfar sjálfstæð kærunefnd útlendingamála sem fer ítarlega yfir mál hvers og eins umsækjanda. Ráðherra hvorki hvetur lögreglu til þess að framkvæma einstakar brottvísanir eða grípur inn í og stöðvar einstakar brottvísanir. Að sama skapi mælir ráðherra ekki fyrir um niðurstöður í einstökum málum. Það gilda einfaldlega lög um málaflokkinn sem stofnanir á sviði útlendingamála framkvæma, að teknu tilliti til fordæma sem kærunefnd útlendingamála og dómstólar setja með sínum úrlausnum. Ég veit ekki hvort þetta sé eitthvað sem fólk vill raunverulega víkja frá,“ segir Ingvar.

Hann segir að lokum að umræðan á Íslandi undanfarið virðist ekki í takt við raunveruleikann. „Umræðan hjá sumum hérna heima er í slíkum skurði að nær öll ríki Evrópu þykja ómannúðleg í málaflokknum. Norðurlöndin eru þar fremst í flokki að mati sumra og það er ómögulegt að Ísland taki upp sambærilega löggjöf og í nágrannaríkjum okkar. Þegar allir hafa rangt fyrir sér, nema þú sjálfur, þá þarftu stundum að endurmeta þær upplýsingar sem þú hefur undir höndum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -