Þorbjörg Skúladóttir, þáverandi aðstoðarskólastjóri Vogaskóla, káfaði á brjóstum á Fjólu Daggar Blomsterberg þegar þær störfuðu saman við skólann en fjallað var um mál þriggja kvenna sem störfuðu í Vogaskóla fyrir nokkrum árum í nýjasta þætti af Kveik. Konurnar þrjár sögðu í þættinum að samskipti sín við Þorbjörgu hafi verið slæm en í þættinum sagði Heba Líf Ásbjörnsdóttir frá því að aðstoðarskólastjórinn hafi ítrekað spurt sig hvort hún væri í nærbuxum og hafi rifið upp kjól hennar til að fullvissa sig um það. Gerðist þetta á starfsmannaskemmtun. Í frásögn Fjólu sagði hún frá því að Þorbjörg hafi káfað á brjóstum Fjólu sama kvöld og hún sá hana áreita aðrar konur sem störfuðu í skólanum. Gerðist þetta einnig á starfsmannaskemmtun. Konurnar þrjár kvörtuðu til borgarinnar vegna hegðunar Þorbjargar og tók Reykjavíkurborg undir það að aðstoðarskólastjórinn hafi í þrígang gerst sek um áreiti, óviðeigandi og óæskilega hegðun í tvígang og kynferðislega áreitni í tveimur tilvikum. Þrátt fyrir þetta hélt Þorbjörg starfi sínu sem aðstoðarskólastjóri. Fjóla og Heba kærðu Þorbjörgu til lögreglu og var hún dæmd í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra. Þorbjörg játaði brot sín og var dæmd í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi og gert að greiða hvorri konu fyrir sig 500.000 krónur í miskabætur. Eftir að dómurinn var kveðinn upp neyddist borgin til að segja upp Þorbjörgu.