Miðvikudagur 8. janúar, 2025
-5.2 C
Reykjavik

Aðventukransinn og kertanöfnin

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Aðventukransar eiga rætur að rekja til ársins 1839, þegar þýski guðfræðingurinn Johann Hinrich Wichern kynnti þá til sögunnar í tengslum við trúboðsstarf sitt.

Aðventukrans Wicherns var því frábrugðinn krönsunum eins og við þekkjum þá í dag, því auk þess að vera prýddur fjórum stórum kertum, einu fyrir hvern sunnudag í aðventu, var á honum einnig að finna mörg lítil rauð kerti.

Fjöldi litlu kertanna var breytilegur, allt eftir því hve margir virkir dagar voru frá fyrsta sunnudegi í aðventu fram á aðfangadagskvöld.

Vagnhjól sem aðventukrans

Wichern notaði gamalt vagnhjól í fyrsta aðventukransinn sinn sem gefur til kynna að honum hafi verið kunnugt um eldri hefðir þegar hann innleiddi þennan sið.

Kransahefðin er nefnilega þekkt í gömlum heimildum þar sem táknfræði hjólsins er getið.

Á miðöldum var aðventukransinn látinn tákna hjól ársins sem allt fram á dimmasta dag ársins hafði snúist heilan hring og var nú í þann veg að færa mönnunum aftur birtu og yl.

- Auglýsing -

Kertaljósahefðin á rætur að rekja aftur í heiðni þegar mesta skammdeginu var fagnað með sólstöðuhátíðum sem færðu fólki birtuna á nýjan leik.

Og svo kom greni…

Wichern léði aðventukransinum nútímalega merkingu, þó svo að það hafi ekki gerst samstundis.

Í kringum árið 1860 þakti hann hjólið með greni og þótti beitt grenið minna á þyrnikórónuna sem Jesús bar þegar hann var krossfestur.

- Auglýsing -

Rauð eða hvít aðventuljós

Wichern léði litum kertanna jafnframt mikla merkingu en hann valdi hvít kerti sem tákn um sakleysi og rauð lét hann svo tákna ást eða kærleika. Hér lenti hann þó í vandræðum.

Margir kirkjunnar menn töldu nefnilega að kertin ættu að vera fjólublá, því það væri kirkjunnar litur fyrir aðventuna.

Allar götur síðan hafa aðventuhefðir skipst í tvennt.

Aðventukransinn var svo líklega innfluttur til Íslands af dönskum kaupmönnum og sást fyrst í tveim stærstu bæjum landsins Reykjavík og Akureyri. (Árni Björnsson, 2000: 334).

Þessi siður kom til Íslands um 1940 og var í fyrstu aðallega notaður til að skreyta búðarglugga en á milli 1944 og 1950 fer hann að birtast á borðum þeirra efnameiri og jafnframt því fara verslanir að selja aðventukransinn um og upp úr 1960 (Árni Björnsson, 2000: 334).

Í blaðagrein með mynd af aðventukransi hangandi neðan úr lofti á einkaheimili í Reykjavík, segir svo: „síðustu árum eru margir hér á landi farnir að hafa í húsum sínum aðventukransinn“ (Jón Auðuns, 1960: 3). Svo greinilegt er að landsmenn hafa verið nokkuð fljótir að meðtaka þennan sið enda nýjungagirni Íslendinga annáluð.

Þróun kransins

Frá 1954 til 1978 er oftast minnst á aðventukransinn í alls konar blöðum og tímaritum. Fyrsta skýra leiðsögnin um tendrun og notkun á aðventukransinum er umfjöllun í Morgunblaðinu 5. des. 1954, bls. 24, (279 tbl.) en þar segir:

Síðastliðinn sunnudag var fyrsti sunnudagur í jólaföstu. Þann dag tendruðu þúsundir manna um gjörvallan heim fyrsta jólaljósið – kveikt var á fyrsta kertinu í jólaföstukransinum eða aðventukransinum….Kransinn hangir í fjórum silkiborðum, sem eru festir í hnúð sem er ofan á 35-40 sm. langri stöng, sem stendur á fæti…Verðið ykkur úti um aðventukrans fyrir næsta sunnudag, þá er kveikt á þremur kertum, og þannig bætist alltaf eitt kerti við, þar til kveikt hefur verið á öllum (Mbl. 5. des. 1954, bls. 24, 279 tbl.).

Eftir þetta fer umfjöllunum að fjölga jafnt og þétt, sérstaklega eftir 1960. Þessir silkiborðar sem hér er sagt frá í lýsingunni hurfu þó rétt um og eftir 1974 og var það fyrst og fremst að völdum umræðu um hættu á sjálfsíkveikju en einnig vegna breytinga í jólaskreytingatísku (Valgerður Valdemarsdóttir, 2007).

Kertin fá þó ekki opinberlega nöfn fyrr en í desember 1978 þegar Jón Dalbú Hróbjartsson, Karl Sigurbjörnsson og Sigurður Pálsson eru ráðnir til við að skrifa í jóladálka Morgunblaðsins og skipta þeir með sér verkum. Fellur aðventukransinn í hlut séra Karls Sigurbjörnssonar (Karls Sigurbjörnsson, 2006).

Hér koma kertanöfnin fram í eftirfarandi röð:

– Spádómakerti; Morgunblaðið 3. desember 1978, bls. 68.

– Betlehemskerti; Morgunblaðið 10. desember 1978, bls. 66.

– Hirðakerti; Morgunblaðið 17. desember 1978, bls. 56.

– Englakertið, kemst þó ekki á prent fyrr en í Morgunblaðinu 20. des, 1981.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -