Æðarfuglinn Kappi Dúdú er allur. Tveir hrafnar drápu hann í gær eftir að fuglinn hafði sloppið frá fjölskyldu sinni á Akranesi.
Á dögunum sagði Mannlíf frá hinni mögnuðu Dalrós Líf Richter, sem verður 16 ára í desember, sem bjargaði æðarfuglsunga út úr eggi sínu og ól hann upp í sumar, fór í göngutúra með Kappa í bandi ásamt hundinum hennar og sá almennt um hann enda algjör dýrahvíslari.
Sjá einnig: Dalrós ungaði út æðafugli og gengur með hann í taumi – MYNDIR
Sorgarfréttir bárust af Kappa í gær en móðir Dalrósar, Jóhanna Kristín Þorsteinsdóttir sagði frá því á Facebook að krummi hefði drepið Kappa, eftir að hann hafði flogið frá þeim.
„Þetta var síðasta knúsið okkar Kappa. En hann flaug í burtu frá okkur í morgun. Svo fréttum við af honum á Langasandi að njóta lífsins og tala við fólk. En svo var hann ekki þar þegar Dalrós fór að athuga með hann. En svo fundum við hann dáinn eftir að Krummi hafði náð honum.“
„Við erum búin að sjá krumma sitja fyrir Kappa,“ segir Jóhanna Kristín í samtali við Mannlíf og heldur áfram: „Hundurinn okkar hefur nokkrum sinnum alveg tjúllað því krummar hafa verið uppi á húsþaki þegar Kappi hefur verið einn úti í garði. Krumminn sirkar auðvitað út svona veikari dýr.“
Jóhanna Kristín segir endalok Kappa afar sorgleg en að hún sé þakklát að hann hafi átt gott sumar með þeim.