Æstur og ógnandi maður með gasgrímu hrellti íbúa í Langholtshverfi í gærkvöldi. Lögreglan var send á vettvang eftir að órólegir íbúar tilkynntu athæfi hans. Ekki er vitað hvað manninum gekk til.
Alvöru unglingapartý var haldið í sama borgarhluta. Eitthvað hafði samkvæmið farið úr böndnum en hiti var í hópnum og slagsmál á staðnum. Lögreglan mætti á vettvang og leysti upp gleðina.
Tilkynnt var um óðan mann í annarlegu ástandi á gistiheimili í Austurbænum. Þegar lögregla kom á vettvang lét aðilinn brjálæðislega og hótaði lögreglumönnum á vettvangi. Gistir hann nú fangageymslu lögreglu.
Leigubílstjóri þurfti aðstoð lögreglu eftir að óður farþegi hafi ráðist á hann og neitað að greiða fyrir farið. Viðkomandi stakk af og skildi bílstjórann eftir með sárt ennið.
Grunsamlegar mannaferðir, hávær partý, ruslabruni og annarlegar athafnir var allt á borði lögreglu í nótt. Þá var tilkynnt um slagsmál og tvær líkamsárásir. Enginn þó alvarlega slasaður. Allt þetta og meira úr dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.