Mánudagur 23. desember, 2024
4.8 C
Reykjavik

Ætla að vísa fjórum börnum undir níu ára úr landi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mohammed Al Deewan og Wedyan Al-Shammari flúðu pólitískar ofsóknir í Írak. Þau flúðu til Grikklands og fengu þar alþjóðlega vernd en aðstæður voru ömurlegar fyrir fjölskylduna ungu. Útlendingastofnun segir ástandið í Grikklandi hins vegar nógu gott og ætlar að senda þau til baka.

Eftir að hafa ekið um í nokkurn tíma í stóru iðnaðarhverfinu blasir kuldalegt fjölbýlishúsið við. Það hefur ekkert verið gert fyrir aðkomuna eða sameignina en inni, í íbúðinni þar sem Mohammed Al Deewan og Wedyan Al-Shammari hafa búið börnum sínum heimili, er hlýlegt og móttökurnar góðar. Börnin þeirra; Ali 9 ára, Kayan 5 ára, Saja 4 ára og hin eins árs gamla Jadin, sitja stillt og prúð á sófanum og stara forvitnum augum á aðkomufólkið. Þau svara vinalegu „hæ“ og vinki með feimnislegum brosum.

Mohammed og Wedyan yfirgáfu Írak árið 2017, eftir að hafa sætt pólitískum ofsóknum. Mohammed sætti m.a. pyntingum af hálfu ofbeldissveita með tengsl við hið opinbera, sem voru á eftir bróður hans. Lögreglan gerði ekkert til að hjálpa. Fjölskyldan ákvað að yfirgefa landið og kom til Grikklands, þar sem hún dvaldi í búðum á eyjunni Samos. Ástandið þar var slæmt; þau deildu litlum gámi með annarri fjölskyldu og höfðu engan aðgang að almennilegri hreinlætisaðstöðu. Wedyan gat ekki farið um ein af ótta við að verða fyrir áreitni hópa ungra manna. Blessunarlega fengu börnin nauðsynlega læknisþjónustu, m.a. við astma, en því var ekki að skipta fyrir fullorðna fólkið.

„Ali byrjaði í skóla en var beittur ofbeldi af kennaranum sínum“

Sumarið 2018 var hælisumsókn fjölskyldunnar samþykkt og hún fékk dvalarleyfi til 2021. Á meginlandinu tók þó lítt betra við; þegar þau höfðu fengið samþykkið nutu þau ekki lengur aðstoðar og þurftu sjálf að verða sér úti um húsnæði. Á endanum leigðu þau litla íbúð með fjórum öðrum fjölskyldum. Það var enga vinnu að fá og Mohammed þurfti að slá lán hjá kunningjum til að eiga fyrir mat og öðrum nauðsynjum. Ali byrjaði í skóla en var beittur ofbeldi af kennaranum sínum. Hann var ekki sá eini í fjölskyldunni sem upplifði miður góðar móttökur því Mohammed og Wedyan upplifðu ítrekað fordóma í sinn garð, m.a. í formi ofbeldis. Í eitt sinn var ráðist á þau með þeim afleiðingum að  Wedyan meiddist alvarlega á hendi. Hún fékk enga læknisaðstoð og glímir enn við skerta hreyfigetu.

Mohammed og Wedyan ákváðu að yfirgefa Grikkland og sóttu um alþjóðlega vernd á Íslandi 28. júní 2019. Þau hafa fengið synjun á efnismeðferð hjá Útlendingastofnun og úrskurðarnefnd um útlendingamál og hefur verið tilkynnt að þau ættu að búa sig undir að vera flutt aftur til Grikklands.

Vísa í það sem ætti að vera en ekki það sem er

- Auglýsing -

Í skýrslu Útlendingastofnunar um mál fjölskyldunnar gengst stofnunin við því að ótti Mohammeds og Wedyan um að vera send aftur sé á rökum reistur. Þar segir m.a. að samkvæmt heimildum séu fordómar, hatursorðræða og glæpir í garð fólks af erlendum uppruna vandamál í Grikklandi. Þá segir einnig að frásögn umsækjanda um erfiðleika með að fá húsnæði komi heim og saman við fyrirliggjandi upplýsingar um aðstæður einstaklinga sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi. Á sama tíma vísar Útlendingastofnun ítrekað til laga og reglna sem eiga að tryggja rétt einstaklinga sem njóta alþjóðlegrar verndar, þrátt fyrir að nýjustu upplýsingar og fréttir bendi til þess að raunveruleikinn sé allt annar.

„Við úrlausn málsins verður byggt á því að umsækjandi og fjölskylda hans njóti í öllum megindráttum sömu réttinda og grískir ríkisborgarar til grunnþjónustu, s.s. heilbrigðisþjónustu, aðgengis að vinnumarkaði og menntun í landinu og geti leitað á náðir félagsmálayfirvalda, annarra þar til bærra stjórnvalda í landinu og eftir atvikum frjálsra félagasamtaka í landinu, telji þau sig þurfa á aðstoð að halda.“

Í Aþenu hefur gömlum ólympíuleikvangi verið breytt í flóttamannabúðir. Þar hafa fjölskyldur búið sér heimili með því að strengja upp gömul lök og sængurver eða slá upp tjöldum. Mynd / epa

Þess er hvergi getið að þau hjálparsamtök sem starfa í Grikklandi segja ástandið þar vonlaust. Amnesty International, sem Útlendingastofnun vísar m.a. til í rökstuðningi sínum, og fleiri hafa t.d. kallað eftir því að stjórnvöld í Grikklandi og öðrum Evrópuríkjum grípi til aðgerða til að rýma búðir á grísku eyjunum sem voru hugsaðar fyrir um fimm þúsund manns en hýsa nú yfir 40 þúsund manns. Samtökin hafa bent á að úrvinnsla mála á eyjunum hafi tafist, ekki síst vegna þess að öll aðstaða fyrir hælisleitendur á meginlandinu sé sömuleiðis fullnýtt og vegna þess að önnur ríki hafa neitað að aðstoða Grikki við að bera þungann af flóttamannastraumnum.

- Auglýsing -

Þá er þess heldur ekki getið að sú ríkisstjórn sem tók við völdum í Grikklandi í fyrra hefur ítrekað gripið til aðgerða og yfirlýsinga sem gagnrýnendur segja endurspegla fjandsamleg viðhorf í garð hælisleitenda. Má þar m.a. nefna nýjar málsmeðferðarreglur, sem alþjóðleg samtök segja sniðin til þess að geta neitað fleirum á tæknilegum forsendum.

UNICEF mælir gegn endursendingum til Grikklands

Mynd / Leifur Wilberg

 

Mohammed og Wedyan hafa leitað til lögmanns en virðast hóflega bjartsýn þegar við þau er rætt. Spurð að því hvað þau sjá fyrir sér ef þau verða send aftur til Grikklands vill Mohammad ekki svara fyrir framan börnin. Síðar í samtalinu segist hann ekki sjá neina framtíð ef þau verða flutt á brott. Hvorki Mohammed né Wedyan tala íslensku eða ensku og þau eru einlæglega þakklát fyrir að máli þeirra sé sýndur áhugi. Ali, sem er í grunnskóla í Hafnarfirði, talar og skilur svolítið í íslensku og nýtur þess augljóslega að fá heimsókn.

Það er Sema Erla Serdar, formaður Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk, sem leiðir samtalið við Mohammed og Wedyan. „Þetta er óþolandi,“ segir hún eftir á um þá staðreynd að stjórnvöld hafi ekki breytt afstöðu sinni til Dyflinnarreglugerðarinnar og sérstaklega barna á flótta. Að í hvert einasta sinn sem flytja eigi börn á brott þurfi að koma til mótmæla, undirskriftasafnana og ekki síst fjölmiðlaumfjöllunar til að ráðamenn finni mannúðina í sjálfum sér.

„Það vita það allir að ástandið í Grikklandi er ekki boðlegt,“ segir hún um röksemdafærslu Útlendingastofnunar og bendir m.a. á umfjöllun Kveiks um stöðu barna á flótta, þar sem fram kom að UNICEF – Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna mælir eindregið gegn því að börn séu send aftur til Grikklands. Aðeins helmingur barna fái skólavist og verulegar líkur séu á því að fólk muni búa við afar bágar aðstæður. Samkvæmt upplýsingum frá stofnunum SÞ eru vísbendingar uppi um að fólk eigi erfitt með að nýta þau úrræði sem eigi að standa til boða og aðlagast grísku samfélagi. Til dæmis eiga færri en 10% flóttamanna bankareikning. Þá stendur atvinnuleysi í landinu í 17%.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -