Laugardagur 7. september, 2024
8.7 C
Reykjavik

Ættingjar Bjarna þrifu Landsbókasafn fyrir hundruði milljóna: „Alltaf leggst þeim eitthvað til“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ræstingafyrirtæki ættingja Bjarna Benediktssonar þrifu Landsbókasafn fyrir hundruði milljóna króna án útboðs.

Heimildin segir frá því í frétt í gær að Dagar, fyrirtæki föður forsætisráðherra, hafi þrifið Þjóðarbókhlöðuna fyrir tugi milljóna á ári án þess að farið væri í útboð. Var stjórnendum ítrekað á margra ára tímabili bent á að kaup á þjónustu sem færi yfir 15,5 milljónir væru útboðsskyld.

Dagar, sem áður hét ISS Ísland og hefur lengi verið með yfirburðastöðu í ræstingabransanum hér á landi, hefur þáð tugi milljóna króna greiðslur á ári fyrir þrif á Þjóðarbókhlöðunni. Voru þrifin á grundvelli samnings frá árinu 2009 en í næstum þrjá áratugi hefur ekki verið gert útboð vegna þeirra.

Benedikt Sveinsson og Einar Sveinsson, sem eru í Engeyjarættinni, eru stærstu eigendur Daga og Benedikt Einarsson, sonur Einars, er stjórnarformaður. Félagið græddi um 405 milljónir króna á rekstri sínum í fyrra en enginn arður var greiddur til eigenda frekar en síðustu ár. Á árunum 2016 og 2018 námu arðgreiðslurnar hins vegar á annan milljarð króna og runnu til fyrri eigenda fyrirtæksins.

Landsbókavörður, Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir staðfestir við Heimildina að í maí hafi útboð verið auglýst og að samið verði um nýjan ræstingaraðila frá og með þessu sumri. Segir hún að útboð hafi tafist af ýmsum ástæðum.

Illugi Jökulsson, sem vinnur á Heimildinni, skrifaði Facebook-færslu við fréttina þar sem kaldhæðnin drýpur af hverju orði. Hér má lesa færsluna:

„Mér finnst svo fallegt að hugsa til þess að öll þau ár sem ég hef notið frábærrar þjónustu starfsmanna Landsbókasafnsins þá hafi meira að segja þar ættingjar Bjarna Benediktssonar verið að maka krókinn! — Alltaf leggst þeim eitthvað til, kútunum tveim, pabba og frænda Bjarna Benediktssonar. Mikið er guðsþakkarvert að VG hafi gert Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum kleift að viðhalda spillingu sinni öll þessi [ár]. Enda hefur íslensk alþýða grætt svo vel á öllu saman, er það ekki? Ha, ekki það? Nú, til hvers var VG þá að þessu?“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -