Föstudagur 27. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Áfallameðferð: „Staldra við, anda meðvitað og hægja nógu mikið á til að finna fyrir okkur sjálfum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
„Ég er áhugamanneskja um mannlegt eðli og hvernig hægt er að bæta líðan og lífsgæði. Ég er líka lífskúnstner og elska að njóta lífsins með fjölskyldu og vinum, bæði hér heima og erlendis. Frönsk menning skipar stóran sess í mínu lífi þar sem ég var svo lánsöm að eignast franskan lífsförunaut sem hefur haft mikil áhrif á mig. Ég bjó í Englandi í nokkur ár og það hafði líka áhrif á mig. Það er flestum hollt að víkka sjóndeildarhringinn og upplifa mismunandi menningu og siði. Ég er Íslendingur en að sama skapi upplifi ég mig hluta af stærri heild, bæði sem Evrópubúa og hluta af mannkyni öllu.“

 

Mannlíf ræddi við Margréti Gunnarsdóttur, en hún starfar á EMDR stofunni. Margrét er lærð M.Sc sálmeðferðarfræðingur, sérfræðingur í geðsjúkraþjálfun og EMDR meðferðaraðili. Hún sérhæfir sig í að hjálpa fólki að takast á við erfiðleika í nánum samskiptum og með sína áfallasögu. Hún segir að erfiðar upplifanir í æsku og áföll hafi mikil áhrif á sjálfsupplifun og tengsl við annað fólk, en hún ætlar að fræða okkur um sína nálgun að sálrænni meðferð og áfallameðferð.

Líkamleg og andleg heilsa er óaðskiljanleg

„Ég fann snemma að mig langaði að vinna með fólki og varð sjúkraþjálfun upphaflega fyrir valinu hjá mér. Ég var samt ekki búin að vinna lengi sem sjúkraþjálfari þegar ég fann að það var ekki alveg nóg fyrir mig. Ég vann við endurhæfingu á Reykjalundi fyrstu árin í starfi sem sjúkraþjálfari og fann þá mjög skýrt að ekki er hægt að skilja að líkamlega og andlega heilsu. Það vakti áhuga minn á að læra meira um sálræna partinn.

Sá áhugi leiddi mig til Englands þar sem ég smátt og smátt bætti við mig þekkingu í samþættri sálrænni meðferð og áfallameðferð.“

Undanfarin ár hefur Margrét unnið á EMDR stofunni sem býður upp á sálfræði- og áfallameðferð. Samhliða hefur hún verið í mjög áhugaverðu alþjóðlegu framhaldsnámi í líkams- og núvitundarmiðaðri sálrænni meðferð sem heitir Hakomi mindful somatic psychotherapy.

„Ég er langt komin með þetta fjögurra ára nám þar sem námslotur fara fram í fallegum litlum bæ á Mallorca á Spáni.“

- Auglýsing -

Fagaðili á geðheilsusviði

Þú ert sálmeðferðarfræðingur. Það er ekki mjög þekkt fagheiti hér á Íslandi. Getur þú útskýrt aðeins betur hvað það er?

„Sálmeðferð er íslenska þýðingin á „psychotherapy“ þannig að sálmeðferðarfræðingur er „psychotherapist.“

- Auglýsing -

Það er gaman að geta sagt frá því að fyrir rúmum tveimur árum var fagfélag sálmeðferðarfræðinga á Íslandi stofnað, nánari upplýsingar um það er hægt að finna á www.salm.is.“

Sálmeðferðarfræðingur er fagaðili á geðheilsusviði, menntaður til að meðhöndla einstaklinga með sálrænan, tilfinningalegan og sálfélagslegan vanda. Sálmeðferðarfræði er sértækt fag aðskilið frá geðlæknisfræði, sálfræði og ráðgjöf.

Unnið er út frá húmanískri nálgun þar sem litið er á einstaklinginn sem heild og áhersla lögð á hugtök eins og frjálsan vilja, trú á eigin getu og þroska sjálfsins. Til að verða sálmeðferðarfræðingur þarf að ljúka fjögurra ára viðurkenndu námi í sálmeðferð en til eru margar útfærslur og nálganir í sálmeðferð. Oftast er fólk með fagmenntun á sviði sálfélags- og heilbrigðisfræða á undan. Grunnþáttur í sálmeðferðarnámi er að nemandi þarf að kynnast sjálfum sér mjög vel og fara í gegnum eigin meðferð í þeirri meðferðarnálgun sem hann er að læra. Ástæðan fyrir því er að meðferðarsambandið er lykilatriði og sálmeðferðarfræðingur notar sjálfan sig sem meðferðartæki. Til þess þarf hann að þekkja og vera í góðum tengslum við meðferðartækið, þ.e. sjálfan sig.

Líkamsmiðuð sálræn meðferð

Hvað er líkamsmiðuð sálræn meðferð? Er þetta ný nálgun í sálfræðinni og hefur þessi nálgun reynst skjólstæðingum þínum vel?

„Líkamsmiðuð sálræn meðferð eða það sem á ensku kallast „body“ eða „somatic psychotherapy“ er sálræn meðferð þar sem líkamleg skynjun og upplifun er tekin með. Skoðað er hvernig reynsla og upplýsingar sitja í líkamanum ekki síður en í huganum og höfðinu. Talað er um að meðferð geti verið „neðan frá og upp“ (e. bottom-up) eða „ofan frá og niður“ (e. top-down). Þá er átt við hver byrjunarreiturinn sé. Ef byrjað er neðan frá þá er fókusinn fyrst settur á innri skynjun og svo farið áfram í tilfinningar og hugsanir. Ef byrjað er uppi þá er byrjað á hugsun og síðan farið áfram í tilfinningar og hugsanlega innri skynjun.

Það merkilega er að hugurinn er í raun mjög takmarkaður. Oft teljum við okkur vita eitthvað en það getur verið mjög yfirborðskennt. Þegar við í alvöru tengjumst inn á við og hlustum á allt kerfið þá fáum við oft upplýsingar sem liggja miklu dýpra og gefa nýjan skilning og innsýn. Til eru nokkrar nálganir sem flokkast sem líkamsmiðaðar og er EMDR meðferð sem margir hafa heyrt um til dæmis í þeim flokki.“

Rannsóknir á áhrifum áfalla og erfiðrar reynslu

Líkamsmiðuð sálræn meðferð er ekki ný af nálinni. Mismunandi útfærslur hafa verið í þróun frá því snemma á síðustu öld.

„Það sem hefur hins vegar komið líkamsmiðaðri sálrænni meðferð meira inn á kortið eru rannsóknir undanfarna áratugi á áhrifum áfalla og erfiðrar reynslu á manneskjuna. Komið hefur í ljós að þegar verið er að vinna með áföll þá er samtalsmeðferð með áherslu á hugræna úrvinnslu ekki nóg.

Áföll og erfið reynsla hefur mikil áhrif á allt kerfið og situr í líkamanum, meðal annars í taugakerfinu. Því er mjög mikilvægt að vinna heildrænt og taka líkamann með þegar unnið er úr áföllum.

Bandaríski geðlæknirinn og vísindamaðurinn Bessel van der Kolk sem gaf út bókina „The body keeps the score“ árið 2014 er einn af þeim sem hafa haft mikil áhrif á þessa þróun. Einnig hefur uppfærð sýn á virkni og hlutverk ósjálfráða taugakerfisins þegar kemur að tilfinningastjórnun, líðan og upplifun öryggis haft áhrif. Rannsóknir taugavísindamannsins Stephen Porges hafa varpað nýju ljósi á starfsemi og mikilvægi flökkutaugarinnar (vagus) en hann er upphafsmaður Polyvagal kenningarinnar.

Það er ótrúlega öflugt að vinna líkamsmiðað, því þannig er oft hægt að komast hratt að kjarna vanda sem annars tæki langan tíma að átta sig á. Með því að fara í gegnum líkamsskynjun og upplifun fáum við aðgang að ómeðvituðum upplýsingum sem ekki er hægt að fá aðgang að með hugrænni vinnu eingöngu.“

Stöðug þróun og ný þekking

Margrét segir það ótrúlega spennandi að vinna á þessu sviði því það sé stöðug þróun og ný þekking að verða til. Henni finnst gaman að sjá að það sem meðferðaraðilar voru búnir að átta sig á út frá kenningum og reynslu sé núna verið að staðfesta með rannsóknum, sérstaklega innan taugavísinda.

Það sem henni finnst áhugavert núna er sú vitundarvakning sem er í gangi um mikilvægi þess að hlúa vel að einstaklingum frá fæðingu og þá einnig að styðja foreldra, umönnunaraðila og samfélagið í heild í að mæta þörfum og vera til staðar á þann hátt sem börn hafa þörf fyrir.

Í allri meðferðarvinnu finnst Margréti gagnlegast að mæta hverjum einstaklingi þar sem hann er staddur og vinna með honum í að kynnast sjálfum sér betur. Það felur í sér að átta sig á ómeðvituðu forritunum sem drífa okkur áfram. Hún segir að: „þegar maður er búin að kynnast þeim og átta sig á hlutverki þeirra er hægt að skoða leiðir til að uppfæra þau. Til þess þarf að hægja á hraðanum, staldra við, hlusta inn á við og þá gefur líkamsskynjun oft mjög mikilvæga innsýn.“

Tengslamyndun

Fólk sem leitar til Margrétar er með margvíslegar áskoranir. Hennar sérsvið er tengslamyndun, samskipti og áfallameðferð.

„Því vinn ég mikið með einstaklingum sem eru að takast á við erfiðleika í nánum samskiptum og með áfallasögu. Erfiðar upplifanir í æsku og áföll hafa mikil áhrif á sjálfsupplifun og tengsl við annað fólk. Þarna erum við að tala um að grundvallaröryggi hefur verið ógnað og getur það skapað langvinnt streituástand þar sem kerfið er nánast í stöðugri varnar- og viðbragðsstöðu. Þá er nauðsynlegt að vinna heildrænt og meta t.d. ástand ósjálfráða taugakerfisins sem er stöðugt að meta hversu örugg við erum.

Einnig leitar til mín fólk sem vill kynnast sjálfu sér betur og fá meira út úr lífinu. Lífið er samfellt þroskaferli og það að taka tíma til að staldra við og kynnast sjálfum sér betur gegnum þerapíu getur verið hjálplegt á þessu þroskaferðalagi sem lífið er.“

Hægja nógu mikið á til að finna fyrir okkur sjálfum

Aðspurð hvaða einföldu ráð hún gæti gefið okkur til að lifa í meira jafnvægi. Þá segir Margrét:

„Að staldra við, anda meðvitað og hægja nógu mikið á til að finna fyrir okkur sjálfum ef við mögulega getum. Eingöngu þannig getum við í raun áttað okkur á hvað skiptir okkur máli og þá frekar hagað lífi okkar í samræmi við það.

Lifa þannig meira meðvitað og velja frekar en að vera á sjálfsstýringu. Annað sem mér finnst mikilvægt er að rækta jákvæð og næringarrík samskipti við aðrar manneskjur. Góð tengsl við a.m.k. eina manneskju sem við getum treyst eru gríðarlega mikilvæg fyrir heilsu og lífsgæði.

Flestir eru meðvitaðir um mikilvægi næringar, hreyfingar og svefns fyrir heilsu.  Ég legg áherslu á að einnig þarf að huga að félagslegum þáttum og nærandi tengslum til að styðja við góða líðan. Allt sem dregur úr neikvæðri streitu og eykur öryggistilfinningu gerir okkur gott. Því er sem dæmi gagnlegt að skoða hvar mér líður vel og með hverjum ég get slakað á og verið ég sjálf.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -