Nýjar niðurstöður úr rannsókninni Áfallasaga kvenna voru birtar á vef BMC Medicine þann 21.2.2022.
Samantekið benda niðurstöður þessara tveggja vísindagreina til þess að forvarnir í barnæsku og stuðningur við börn sem lenda í áföllum geti haft mikilvæg áhrif á heilsufar á fullorðinsárum.
Þessi rannsókn tók til þeirra tæplega 12.000 þátttakenda rannsóknarinnar Áfallasögu kvenna sem höfðu haft blæðingar árið fyrir þátttöku. Konurnar svöruðu ítarlegum spurningalista, m.a. um áföll í æsku og einkenni fyrirtíðaraskana en það eru margvísleg líkamleg og andleg einkenni kvenna í aðdraganda blæðinga.
Niðurstöður sýndu sterk tengsl milli áfalla í æsku og einkenna fyrirtíðaraskana á fullorðinsárum — þannig voru konur sem höfðu upplifað fjögur eða fleiri áföll í æsku meira en tvöfalt líklegri til að þjást af einkennum fyrirtíðaraskana en þær sem ekki áttu sögu um áfall í æsku. Þau áföll í æsku sem höfðu sterkust tengsl við einkenni fyrirtíðaröskunar voru kynferðislegt ofbeldi og tilfinningaleg vanræksla.
Þetta er önnur vísindagreinin sem birst hefur á stuttum tíma frá rannsókninni Áfallasögu kvenna sem sýnir fram á mikilvægi áfalla í æsku kvenna í þróun heilsubrests á fullorðinsárum. Nýlega birtust niðurstöður í vísindaritinu eLife um tengsl áfalla í æsku við almennan geðheilsuvanda og skertar getu til að takast á við áskoranir daglegs lífs.