Í byrjun desember 2021 sagðist Ágúst Bjarni Garðarsson muna stíga úr stóli sínum í bæjarstjórn Hafnarfjarðar „á næstu vikum“ enda þá orðinn þingmaður Alþingis. Nú, rúmlega þremur mánuðum síðar situr Ágúst enn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar á fullum launum sem slíkur.
Ágúst Bjarni Garðarsson starfar bæði á Alþingi Íslendinga fyrir Framsóknarflokkinn og í bæjarstjórn Hafnarfjarðar fyrir Framsókn og óháða en Þann 6. desember 2021 sagði hann í samtali við Mannlíf að hann stefndi á að hætta í bæjarstjórninni „á næstu vikum“ en sagði hann þá að varamaður sinn væri skólastjóri í stórum skóla og því snúið að láta hann taka sæti sitt vegna þeirra verkefna sem hvíldi á skólum landsins vegna Covid faraldursins.
„Staðan er þannig að ég er formaður bæjarráðs og við erum í miðri á með fjárhagsáætlun. Seinni umræða er 8. desember. Ég mun klára þá vinnu, en stíga svo til hliðar á næstu vikum. Varabæjarfulltrúi minn er skólastjóri, Valdimar Víðisson, í stórum skóla og við erum að reyna finna lendingu á þessum málum. Ég hef þegar sagt mig frá setu í hafnarstjórn og stjórn Sorpu,“ sagði Ágúst þann 6. desember í samtali við Mannlíf.
Fram kom í fréttinni í fyrra að heimildarmenn Mannlífs bæru öllum saman um að bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Rósa Guðbjartsdóttir, vildi alls ekki missa Ágúst úr bæjarstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra og að hún hefði lagt hart að honum að sinna báðum störfum. „Rósu finnst gott að vinna með Ágústi, og ég er ekki að segja að hún treysti ekki Valdimari Víðissyni sem tekur við af Ágústi sem oddviti Framsóknar og óháðra, en það alveg óhætt að segja að Rósa er lítt spennt fyrir að starfa með nýjum manni í meirihlutanum, jafnvel þótt stutt sé til kosninga. Hún veit að Valdimar er tregari í taumi en Ágúst,“ er haft eftir einum af heimildarmönnum Mannlífs.
Mannlíf heyrði í Ágústi í dag og spurði hann hvernig stæði á því að hann væri enn við störf í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. „Það fer svona að líða að þessu. Ég sagði blaðamanni Mannlífs í desember það sama, varamaður minn er skólastjóri og hefur bara haft í nógu af snúast í Covid faraldrinum. En það var þá og það er farið að horfa til betri vegar hvað það varðar. Þannig að það fer að líða að því að ég yfirgefi sviðið hér.“
Blaðamaður: „Hefurðu verið að þyggja laun frá Hafnarfirði fyrir störf þín þar?“
Ágúst: „Já, já. Það er allt saman skráð í hagsmunaskrá Alþingis. Það er nú bara svona Björgvin að auðvitað finnst sumum þetta skrítið en kosningar eru bara með þeim hætti að við erum kosin til ákveðinna verka af fólkinu og svo koma þarna þingkosningar sem maður ákveður að taka þátt í.“
Blaðamaður: „Það hlýtur að vera 100% vinna að starfa á Alþingi ekki satt?“
Ágúst: „Jú, það er það.“
Blaðamaður: „Ertu þá í 200% starfi eða?“
Ágúst: „Nei, sveitastjórnarmál eru ekki 100% störf. Allir sveitastjórnarmenn eru í öðrum vinnu, þeir eru kennarar, smiðir og hvað eina. Ég er líka ekki eini þingmaðurinn sem er í þessari stöðu, við erum nokkur sem erum að koma úr sveitastjórnarstörfum og á þing.“
Blaðamaður: „Hvenær býstu við að hætta í bæjarstjórninni?“
Ágúst: „Ég er bara ekki alveg viss um það, hvort það sé á næsta fundi eða þar næsta.“