Ágúst Óskarsson, íþróttakennari og kaupmaður, er fallinn frá 75 ára að aldri en mbl.is greindi frá andláti hans.
Ágúst fæddist á Akureyri en stundaði nám í Reykjadal í æsku sinni og lærði svo íþróttakennarann síðar meir en hann var mikill íþróttagarpur og þjálfaði bæði frjálsar íþróttir og knattspyrnu auk þess að vera íþróttakennari.
Hann stofnaði svo fyrirtækið Á. Óskarsson formlega árið 1978 ásamt Helgu Sigurðardóttur, eiginkonu sinni, en fyrirtækið sérhæfir sig í að selja vörur og búnað fyrir íþróttahús, sundlaugar, skóla og leikskóla.
Ágúst var virkur í félagsstarfi í gegnum ævina en hann var meðlimur í Félagi íslenskra stórkaupmanna, meðlimur í Íslensk-kínverska viðskiptaráðinu, félagi í Oddfellowreglunni og meðlimur í Félagi frímerkjasafnara.
Ágúst lætur eftir sig þrjú börn.