Vía útgáfa gefur nú út, fyrir næsta ár, dagatal þar sem lögð er áhersla á merkilega daga sem snerta konur og jaðarsetta hópa. Elinóra Guðmundsdóttir, stofnandi og eigandi Vía, segir í samtali við Fréttablaðið að með þessari nýjung sé lögð áhersla á að fagna þeim sem áður hafa verið falin. Dagatalið er hannað af Ásgerði Heimisdóttur en Berglind Brá Jóhannsdóttir sá um umbrot.
„Við höfum, í samstarfi við Kvennasögusafnið, safnað saman mikilvægum dögum í jafnréttisbaráttu kvenna, fatlaðra, hinsegin og annarra jaðarsettra. Þetta eru dagar sem okkur finnst gleymast og þarna eru þeir allir á einum stað. Okkur fannst þetta persónulega vanta, það er svo margt sem er falið sem snertir konur og jaðarsetta hópa og með þessu getum við lyft því upp sem var áður falið. Þetta eru dagar sem við eigum að muna, þekkja og fagna,“ segir Elinóra.
Hún segir að á dagatalinu sé QR kóði þar sem fólk er leitt inn á vefsíðuna þeirra þar sem hægt er að lesa meira um þá daga og fólk sem er á dagatalinu.
Elinóra segir að dagatalið sé tilvalin viðbót við jólapakkann en það er hægt að fá það á vef Uppskeru listamarkaðar hér.
„Þetta er jólapakkavænt verð, á 4.990 krónur,“ segir Elinóra.