Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Ahmed missti öll börn sín í sprengjuárás: „Pabbi, hvenær getum við spilað fótbolta á Íslandi?“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ahmed Al-Mamlouk er Palestínumaður sem íslensk yfirvöld vilja senda úr landi. Hann missti konu sína og öll fjögur börn sín í sprengjuárás Ísraelshers á hús þeirra á Gaza, á dögunum.

Mannlíf kíkti í stærsta tjaldið sem stendur á Austurvelli en þar hafa nokkrir örvæntingafullir Palestínumenn sett upp tjaldbúðir, í von sinni um að yfirvöld á Íslandi bregðist við og komi fjölskyldumeðlimum þeirra frá Gaza, sem nú þegar hafa fengið samþykki um fjölskyldusameiningu við þá sem hér eru. Sumir þeirra sem dvelja þarna eru þar til að biðla til ríkisstjórnarinnar að miskuna sig yfir þeim og leyfa þeim að vera áfram í landinu, með mannúðarsjónarmiðið í huga.

Það var skítkalt í gær en í tjaldinu var hlýja og það ekki einungis vegna þeirra hitalampa sem góðborgarar hafa fært mönnunum sem þar dvelja, heldur stafaði hlýjan einnig frá þeim sem þar voru. Ekki voru allir þar inni Palestínumenn, því þar voru einnig nokkrir Íslendingar, sem vanið hafa komu sína í tjaldið að undanförnu, til að sýna stuðning í verki. Þá var þar einnig Sýrlendingur, sem hér býr en hann kom þangað til að túlka fyrir viðtalið.

Við tjaldbúðirnar
Ljósmynd: Björgvin Gunnarsson

Ahmed Al-Mamlouk er lítillátur maður, kurteis og viðkunnalegur. En í augum hans er gríðarleg sorg, tómleiki. Og ástæðan er ærin. Ahmed missti á dögunum alla fjölskyldu sína á einu bretti. Kona hans, Asmae, Alaa, 14 ára sonur hans, Mohamad, 12 ára sonur hans, Yeaha, 10 ára sonur hans og einkadóttir hans, hin níu ára Nadia, voru öll sömul á heimili sínu á Gaza, ásamt bróður Asmae, hinu fræga skáldi og fræðimanni, Refaat Alareer, þegar ísraelski herinn sprengdi húsið í loft upp. Öll dóu þau nema Nadia, sem var flutt illa særð á höfði, á sjúkrahús. Ahmed reyndi eftir bestu getu að ná sambandi við Rauða krossinn á Gaza, um að koma dóttur hans á öruggara sjúkrahús en fékk engin svör. Þá bað hann Rauða krossinn á Íslandi um áheyrn en fékk ekki svör fyrr en fjórum dögum síðar. Það var um seinan því Nadia lést af sárum sínum þremur dögum eftir árásina.

Blaðamaður Mannlífs settist niður með Ahmed og túlkinum Muhammad Shawa, frá Sýrlandi, í nokkuð mjúkan sófa í stærsta tjaldinu við Alþingishúsið. Og bað Ahmed að segja sögu sína.

Ferðalagið

- Auglýsing -

Ahmed ákvað fyrir fimm árum að flytja frá Gaza í leit að betra lífi fyrir sig og fjölskyldu sína. En hann fór einn.

„Ég flutti til Tyrklands og bjó þar í tvö ár. Svo flutti ég til Austurríkis og var þar í næstum 17 mánuði og nú hef ég verið hér á Íslandi í næstum því 14 mánuði. Frá því að ég var unglingur og til dagsins í dag, hefur alltaf verið stríð á Gaza. Á hverju einasta ári. En svo kom sá dagur að ég ákvað að í ljósi þess að nú væri ég kominn með eiginkonu og börn, sem ég elska út af lífinu, að þá verð ég að finna betra líf handa okkur í öruggara landi. En því miður reyndist það tilgangslaust.“

En af hverju fórstu einn?

- Auglýsing -

„Aðalástæða þess að ég skildi fjölskylduna eftir er kostnaðurinn en það var mjög dýrt fyrir mig að ferðast til Evrópu. En svo var áhættan sem ég tók á ferðalaginu einnig of mikil. Ég flutti frá Gaza til Egyptalands og frá Egyptalandi til Tyrklands en það gerði ég löglega, með því að kaupa flugmiða þangað. En ég má ekki ferðast yfir landamæri frá Tyrklandi, þannig að ég fór sjóleiðis frá Tyrklandi til Grikklands og þaðan til Austurríkis og loks til Íslands. Og nánast allt ferðalagið var ólöglegt og kostaði heilmikið og ég hafði ekki efni á að taka alla fjölskylduna með mér. Hvað áhættuna varðar, þá var hún gríðarmikil. Ég fór oftast fótgangandi yfir landamæri og lögreglan elti okkur [með honum var annar flóttamaður] út um allt. Við þurftum að ferðast fótgangandi, í bát og þurftum jafnvel að synda og í sumum tilfellum að skríða. Ímyndaðu þér að hafa börn með þér í þessum aðstæðum. Við feður, tökum áhættur sjálfir en myndum aldrei leyfa fjölskyldunni að taka þær, þannig að við fórnum okkur fyrir fjölskylduna.“ Ahmed sagðist sjálfur ekki hafa orðið vitni af dauða flóttafólks en heyrði af öðrum hópum þar sem fólk hafði látist á ferðalagi sínu í átt að betra lífi í Evrópu.

Af hverju fórstu frá Tyrklandi?

„Ég ákvað að gefa mér tækifæri og dvaldi í Tyrklandi um tíma og reyndi mitt besta við að skapa mér líf þar sem ég hefði efni á að koma fjölskyldu minni til mín svo við gætum lifað góðu, öruggu lífi. En þrátt fyrir að ég vann 12-13 klukkustundir á dag, hafði ég ekki efni á að framfleyta sjálfum mér, hvað þá fjölskyldu minni.“

En af hverju vildirðu koma til Íslands?

„Það eru þrjár ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi af því að Íslendingar eru þekktir fyrir mannúð sína og gera sitt besta fyrir réttlæti til handa fólki í neyð. Í öðru lagi er Ísland þekkt fyrir tjáningarfrelsi og lýðræði. Hér geturðu sagt það sem þú vilt og átt samræðum um alla hluti. Og þriðja ástæðan er sú að Ísland, að minnsta kosti er það minn skilningur, reynir alltaf sitt besta við að bjarga mannslífum.“

Árásin

„Eftir að stríðið hófst 7. október, fluttu ættingjar mínir til austurhluta Gaza en eiginkona mín og fjögur börn okkar, náðu ekki að elta þau og koma sér á brott og voru því föst í húsinu okkar. Við reyndum að hafa samband við Rauða krossinn til að koma þeim í burtu frá því svæði sem var verið að sprengja en fékk þau svör að Rauði krossinn væri einnig skotmark Ísraelshers og því gæti hann ekkert gert. Eftir að Ahmed hafði ekki náð sambandi við fjölskyldu sína í 25 daga, hafði hann aftur samband við Rauða krossinn og bað um hjálp en fékk sömu svör, það væri því miður ekkert sem hann gæti gert.“

En svo komu skelfilegu tíðindin.

„Þann 7. desember fékk ég þær fréttir að árás hefði verið gerð á húsið sem fjölskylda mín bjó í. Kona mín dó í árásinni ásamt þremur sonum okkar og tveimur bræðrum hennar. Dóttir okkar, Nadia, var flutt á sjúkrahús, illa særð á höfði. Ég heyrði aftur í Rauða krossinum og bað um hjálp við að koma henni frá Gaza og á annað sjúkrahús, svo hún geti fengið almennilega aðhlynningu. Og ég hafði líka samband við Rauða krossinn á Íslandi, til að biðja hann um að þrýsta á Rauða krossinn á Gaza, um hjálp fyrir dóttur mína. En því miður fékk ég þær fréttir, eftir að hafa reynt í þrjá daga, að Nadia var látin. Fjórum dögum eftir andlát hennar, hafði Rauði krossinn í Reykjavík samband og vildi funda með mér. Ég fór á fundinn og var þar spurður hvað Rauði krossinn gæti gert fyrir dóttur hans. Þau vissu sem sagt ekki að hún væri látin. Ég sagði þeim að hún væri því miður ekki lengur í þessu jarðlífi og það væri ekkert sem þau gætu gert. Eftir að hafa verið fjarri fjölskyldu minni í fimm ár, missi ég hana á einu bretti.“

Börnin dreymdu um betra líf

Mannlíf bað Ahmed að segja aðeins frá eiginkonunni og börnunum sínum fjórum, ef það væri ekki of erfitt fyrir hann.

Blessuð séu minning þeirra

„Asmae var ein með fjögur börn á Gaza, í gríðarlega erfiðum aðstæðum. Hún var hetja. Hún var móðir barnanna og hún var faðir þeirra líka. Hún gerði allt sem hún gat fyrir börnin. Og við vorum alltaf í sambandi og töluðum um að sameinast aftur einn daginn. En það gerðist aldrei, því miður.“

Ahmed lýsti svo börnum sínum lauslega en þau voru öll full af lífi og draumum um betra líf á meðan þau lifðu. „Ég hafði ekki séð þau í fimm ár en var í stöðugu sambandi við þau í gegnum WhatsApp og myndasímtöl. Alaa, 14 ára sonur minn, var mjög ástríðufullur og afar metnaðarfullur og lærði stíft. Hann langaði að verða eins og frændi hans, sem er enskukennari og var að feta í fótspor hans. Muhammad, 12 ára, elskaði fótbolta. Í hvert skipti sem ég var að tala við Asmae í myndsímtali, birtist alltaf Mohamad og tók símann af mömmu sinni og spurði „Pabbi, hvenær getum við spilað fótbolta á Íslandi?“ Yeaha, tíu og hálfs árs, hann átti hjól sem hann notaði mjög mikið og í hvert skipti sem við töluðum saman var hann að biðja mig um að kaupa vespu handa sér. En ég sagði að ég myndi gera það þegar hann kæmi til mín en hann vildi að ég keypti það strax, því kannski myndi ég ekki eiga fyrir því þegar hann fengi loksins að komast til Íslands. Nadia, níu ára einkadóttir mín, var mjög glaðlynd. Hún vildi flytja til Íslands og bað mig um að kaupa handa sér Ipad. Hún hringdi oft í mig og söng fyrir mig ljóð sem hún hafði lagt á minnið í skólanum. Svo átti hún til að leika sér að því að farða sig og sendi myndir af sér þannig.“

Nadia

Þegar blaðamaður Mannlífs táraðist við að hlusta á lýsingarnar á börnunum baðst Ahmed afsökunar á að láta hann líða svona illa yfir þessu öllu.

„Árið 2014 var einnig framið stærðarinnar þjóðarmorð á Gaza og við hjónin vorum að flýja með börnin undan árásunum. Þetta var skelfilegt. Við þurftum að klífa yfir lík fólks og ég hjálpaði við að fjarlægja lík af götunum. Þannig að ég vandist því að sjá svo hræðilega hluti og að vera í slíkum aðstæðum. Þannig að mér þykir leitt að hafa komið þér í uppnám.“

En hvernig líður þér?

„Ég er algjörlega niðurbrotinn að innan. Sár mitt er mjög stórt. Ég missti alla fjölskyldu mína, öll börnin. En samt sem áður hugsa ég stundum, að ég verði að halda áfram, ég verð að komast yfir það sem gerðist og halda áfram með líf mitt. En ég veit að ég mun aldrei gleyma eiginkonu minni og börnum. Ég man alla góðu dagana og alla slæmu dagana sem við áttum saman, á Gaza. Ég mun ekki gleyma þeim. Ég mun aldrei gleyma myndbandinu þar sem dóttir mín er dregin út úr rústum hússins. En mig langar að gefa sjálfum mér tækifæri á að halda áfram, svo ég geti lifað einföldu lífi, svo það hvetji mig til þess að ná aftur takti hins venjulega lífs. Ég er bjartsýnn maður en ég viðurkenni að ég fer upp og ég fer niður, ég flökta. En ég er í grunninn bjartsýnn og jákvæður.“

Ertu einnig bjartsýnn um ástandið á Gaza og framtíð þess?

„Þegar kemur að ástandinu á Gaza er ég ekki bjartsýnn. Ég á föður þar sem er gamall maður og veikburða. Hann fékk heilablóðfall árið 2018 og hefur sótt læknisaðstoð vegna þessa. Ég hef ekki heyrt í honum eða öðrum fjölskyldumeðlimum í yfir mánuð og veit því ekki hvort hann sé að taka lyfin sín, býst ekki við því reyndar. Fólkið á Gaza er að deyja vegna lyfjaskorts, matarskorts, vatnsskorts. Þar er ekkert rafmagn né símasamband. Þannig að ég er alls ekki bjartsýnn um ástandið á Gaza.“

Staðan í dag

En hvernig er staða Ahmeds á Íslandi? Er hann búinn að fá dvalarleyfi eða er búið að neita honum?

„Ég fékk fyrstu neitunina eftir að hafa beðið í 14 mánuði en ég áfrýjaði en fékk aftur neitun. Ég reyndi svo að áfrýja aftur með hjálp lögmanns en fyrir stuttu fékk ég lokaneitunina, sem þýðir að ég verð brátt sendur úr landi. Það á að senda mig aftur til Austurríkis en þegar ég var þar síðast var engin von fyrir mig um að fá hæli þar.“

Ahmed þakkaði Mannlífi fyrir að ljá sér rödd og vildi koma eftirfarandi á framfæri til íslenskra yfirvalda. „Ég vil biðla til íslenskra yfirvalda að veita okkur hér dvalarleyfi af mannúðarástæðum því við erum eftir allt manneskjur, við erum með sál.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -