Ríkisskattstjóri hefur til skoðunar nokkur mál áhrifavalda þar sem útlit er fyrir ófullnægjandi skattaskil. Áhrifavaldar eru því í skotlínu Skattsins, sem vill að ríkið fái sinn skerf.
Kristín Gunnarsdóttir, sérfræðingur hjá ríkisskattstjóra, staðfesti í morgun að slík mál væru til meðferðar. „Nokkur mál eru til meðferðar hjá embættinu þar sem ætlað er að skattskil hafi ekki verið fullnægjandi,“ sagði Kristín en tók jafnframt fram að enn hefði ekki komið til beitingu sekta vegna ætlaðra brota.
Mikil aukning hefur verið á notkun samfélagsmiðla til stafrænnar markaðssetningar og samstarfs þar sem vörum, eða þjónustu, er komið á framfæri og auglýst. Skatturinn greindi frá því í febrúar síðastliðnum að embættinu hafi borist ábendingar um möguleg brot. Þá liggur það nú ljóst fyrir að nokkur þeirra bendi til ófullnægjandi skattaskila. Óvíst er hve háum sektum er beitt við slík brot en mun Mannlíf fylgjast með framvindu málsins.