Aldís Kara Bergsdóttir hefur verið valin skautakona ársins 2021. Þetta er í þriðja sinn í röð sem Aldís hlýtur tilnefningu.
Aldís Kara æfir með Skautafélagi Akureyrar undir leiðsögn Darja Zajcenko.
„Aldís Kara er verðugur fulltrúi skautaíþrótta þar sem hún sýnir ávallt mikinn dugnað og metnað við iðkun íþróttarinnar. Hún hefur ekki látið heimsfaraldur stöðva sig og er jafnvel enn staðfastari í sínum markmiðum en áður, en þau voru að ná lágmörkum inn á Evrópumeistaramót og Heimsmeistaramót,“ segir í tilkynningu á vef Skautasambands Íslands.
Samhliða keppnum og þrotlausum æfingum er Aldís Kara einnig að ljúka stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri í vor.
Aldís Kara vann sér inn keppnisrétt á Evrópumeistaramóti í listskautum, fyrst íslenskra skautara. Hún stefnir nú að því að komast inn á Heimsmeistaramót.
„Aldís Kara lauk svo árinu með því að að slá eigið Íslandsmet enn og aftur á Íslandsmeistaramótinu sem haldið var 19. -21. nóvember sl.. Þar hlaut hún 136.14 stig og sýndi þar með að hún er hvergi hætt sínum áformum um að fara enn lengra. Jafnframt eru þetta hæstu stig sem gefin hafa verið í Senior flokki á Íslandi,“ segir á vef Skautasambandsins.
Að lokum segir í tilkynningunni: „Aldís Kara er kappsfull íþróttakona og er yngri iðkenndum góð fyrirmynd bæði í framkomu og viðhorfi til íþróttarinnar. Hún er vel að þessum titli komin og frábær fulltrúi fyrir íþróttina.“