Hæstaréttarlögmaðurinn Gunnar Ingi Jóhannsson hefur sent Agnesi G. Bragadóttur kröfubréf fyrir hönd Aldísar Schram, þar sem þess er krafist að Agnes birti opinbera afsökunarbeiðni á ærumeiðandi ummælum um Aldísi, auk þess að greiða henni 500.000 krónur í miskabætur auk 150.000 krónur í lögmannskostnað.
Ummælin sem um ræðir birti Agnes á Facebook-síðu Bryndísar Schram, móður Aldísar, þann 7. desember síðastliðinn eins og Mannlíf greindi frá. Þar ber hún Aldísi þungum sökum og fer um hana ófögrum orðum. Agnes segir þar Aldísi hafa reynt að nauðga sér á læstri sjúkrastofu á geðdeild Landspítalans og kallar hana meðal annars „froðufellandi kynlífsbrjálaða graðkerlingu“.
Agnes segir Aldísi einnig vera aðalhvatamann og leikstjóra að kynferðisbroti sem Jón Baldvin Hannibalsson, faðir Aldísar, er sakaður um að hafa framið gegn Carmen Jóhannsdóttur, en Jón Baldvin var sýknaður í því máli í héraðsdómi á dögunum.
Í kröfubréfinu segir að ummælin séu „sérlega ógeðfelld“ og þau ekki sögð eiga við nein rök að styðjast. Þau eru sögð mjög ærumeiðandi.
Þess er krafist að opinber afsökunarbeiðni Agnesar birtist meðal annars þar sem ummælin voru upphaflega birt, sem og að hún verði send á alla þá fjölmiðla sem fjallað hafa um málið. Þess er einnig krafist að ummælin verði öll sem ein sögð röng og óviðurkvæmileg og að öllu leyti dregin til baka.
Agnes Bragadóttir hefur tíu daga til að bregðast við kröfunni. Eftir það áskilur Aldís Schram sér rétt til að kæra hana til lögreglunnar.