Alls 324 börn eru nú í eftirliti á Covid-göngudeild Landspítalans. Aldrei hafa fleiri börn verið í eftirliti á deildinni. Þessu er greint frá á heimasíðu spítalans í dag.
Nú eru alls fimmtán sjúklingar inniliggjandi á spítalanum með Covid-19, þar af þrír á gjörgæslu og allir í öndunarvél. Einn er á bráðageðdeild og ellefu á smitsjúkdómadeild. Tvær innlagnir voru í gær vegna sjúkdómsins.
„Gríðarlegur fjöldi smita greindist í gær og verkefnin vaxa í samræmi við það,“ segir á vef Landspítala.
Spítalinn sendir nú út sérstakt ákall til þeirra sem búa yfir hæfni til starfa á gjörgæsludeildum. Biðlað er til þeirra aðila að skrá sig á bakvarðalista.
Í Kastljósi í kvöld sagðist Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, starfandi forstjóri Landspítalans, vilja herða aðgerðir strax til að ná niður smitum. Á degi hverjum greinist tæplega 200 með veiruna og daglega þurfi tveir til þrír að leggjast inn á spítalann. Hún segir smitsjúkdómadeild spítalans vera að fyllast.
Í gær greindust 178 með Covid-19 og er það mesti fjöldi sem greinst hefur á einum degi hér á landi frá upphafi faraldursins.
Guðlaug sagði að núna væru 45 smitaðra flokkaðir gulir, sem þýði að fylgjast þurfi sérstaklega með þeim vegna hættu á að þeir þurfi á innlögn að halda.