Lögreglu barst tilkynning um brunalykt í fjölbýlishúsi í miðbæ Reykjavíkur seint í gærkvöld. Húsráðandi hafði gleymt potti á eldavél og mætti slökkviliðið til þess að reykræsta. Þá var tilkynnt um eld í heimahúsi í Hafnarfirði en hafði tekist að slökkva eldinn þegar lögregla og slökkvilið komu á vettvang.
Í Mosfellsbæ var lögregla kölluð til vegna unglings sem var ofurölvi. Málið var afgreitt með foreldrum og barnavernd.
Um miðnæturbil í gærkvöldi sást til einstaklings reyna að komast inn í bíla í miðbænum. Lögregla var aðeins of sein á vettvang þar sem manninum tókst að lokum að komast inn í bíl og aka á brott. Stuttu síðar fann lögreglan bílinn og handtók manninn sem gisti í fangaklefa í nótt.
Klukkan þrjú í nótt stóð bifreið í ljósum logum í Árbænum. Eldurinn barst í aðra bifreið en slökkviliðið náði að slökkva eldinn. Ekki liggur fyrir hvort um íkveiku hafi verið að ræða.
Að lokum tók lögreglan skráningarmerki af fimmtán bifreiðum á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Eigendur höfðu trassað aðalskoðun.