„Mér finnst tvískinnungur afturhaldssinna sem róa öllum árum gegn réttindum trans fólks kristallast mjög einkennandi í því að þeir hafa miklu meiri áhuga á að setja lög og reglur til að takmarka skaða sem þeir ímynda sér í fordómum sínum að gætu gerst ef trans fólk fær að vera til, en þeir hafa á að koma í veg fyrir miklu meiri skaða sem gerist síendurtekið.“ Þannig hefst Facebook-færsla Alexöndru Briem, borgarfulltrúa Pírata og transkona. Færslan hefur vakið talsverða athygli en um hundrað manns hefur sýnt velþóknun sína á henni, enda umræðuefnið þarft, í ljósi þess að verulega hallar á transfólk eftir að Donald Trump tók við embætti Bandaríkjaforseta.
Alexandra færir síðan rök fyrir fyrstu orðum sínum í færslunni:
„Þeir vilja ekki takmarka skotvopnaeign eða efla velferðarinnviði eða geðheilbrigðisþjónustu þó það geti komið í veg fyrir ítrekaðar skotárásir í grunnskólum, af því að rétturinn til að bera vopn sé svo mikilvægur og rétturinn til að borga ekki of háa skatta sé svo mikilvægur. Samt er þetta raunverulegur skaði sem verður hundruðum barna að bana.
Á sama tíma finnst þeim ekkert tiltökumál að ákveða með einu pennastriki að trans fólk sé ekki til, kynin séu tvö, ákvörðuð við fæðingu og engin breyting þar möguleg. Þeir banna svo trans fólk í herþjónustu, útiloka alla orðræðu sem tengist hinsegin málum einu sinni óbeint í gögnum frá lyfjaeftirlitinu og segjast ekki ætla að fjármagna skóla sem ætli áfram að viðurkenna tilvist okkar, þeir banna líka trans fólk í íþróttum.“
Segir Alexandra að transfólk hafi aldrei brotið af sér í búningsklöfum né gengið berserksgang:
„Samt hefur trans fólk aldrei brotið af sér í búningsklefum, höfum aldrei gengið berserksgang að berja börn með bókum. Hættan sem þeir segjast vera að vernda gegn er algjör hugarburður, en samt finnst þeim í lagi að ganga mjög hart fram gegn borgaralegum réttindum og mannréttindum.“
Að endingu segir Alexandra að málið snúist ekki um vernd né hættur:
„Auðvitað er svarið augljóst. Þetta snýst ekki um að vernda neinn, þetta snýst ekki um hvaða hættur séu raunverulegar.
Þetta snýst bara um hatur og að spinna upp ótta.
Og mér finnst það skelfilegt hversu mörgum finnst þetta annað hvort bara allt í lagi, eru jafnvel bara spennt fyrir þessu, eða kannski vissulega slæmur fórnarkostnaður en sjá samt spennandi tækifæri í því að verið sé að hrista upp í hlutunum eða eitthvað.“