Sorphirða í Reykjavík orðin að stóru vandamáli.
Sífellt fleiri Reykvíkingar hafa á undanförnum vikum og mánuðum kvartað undan lélegri sorphirðu sem borgin býður upp á. Kristín Jónsdóttir er ein þeirra.
„Ég er orðin ansi pirruð á því að fá engin svör um hvenær sorpið verður losað úr tunnum, en ég er búin að hringja nokkrum sinnum og það liggja frá mér skilaboð hjá borginni,“ sagði hún í viðtali við mbl.is. Kristín býr í Seljahverfi en greinir hún frá því að plast- og pappírstunnurnar hafi ekki verið losaðar í sex vikur.
„Ég er búin að búa erlendis í mörg ár og er mjög vön flokkun og sorphirðu og hef verið mjög jákvæð gagnvart þessu framtaki og fannst alveg kominn tími til að nútímavæða sorpmálin hérlendis,“ sagði Kristín um málið.
Þá er Kristín ósátt við skort á upplýsingagjöf.
„Á vefnum segir að losa eigi tunnurnar á tveggja vikna fresti en núna eru liðnar sex vikur og engar uppfærðar upplýsingar um hvenær búast megi við að tunnurnar verði tæmdar.“