Fjórir íslenskir karlmenn á þrítugsaldri voru handteknir í gær. Þeir eru grunaðir um að hafa ætlað að fremja hryðjuverk á Íslandi, mögulega gegn Alþingi. Mennirnir eru taldir hafa haft tengsl við hægri öfgahópa á hinum Norðurlöndunum.
Lögregla boðaði til blaðamannafundar í gær vegna málsins en rannsóknin er sögð á frumstigum. Lagt var hald á fjölda skotvopna, síma og tölva, sem nú verður rannsakaður. Tveir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins, annar í viku og hinn í tvær vikur.
Erlendir fjölmiðlar á borð við CNN og The Guardian hafa fjallað um aðgerðir lögreglu hér á landi í vikunni.
Ef marka má Morgunblaðið er talið að hugsanlegar árásir mannanna hafi verið yfirvofandi á næstu dögum. Svo lítið bar á var gæsla hert við Alþingishúsið og höfðu mennirnir einnig sérstakan áhuga á árshátíð lögreglumanna sem haldin verður í næstu viku.
Rithöfundurinn Illugi Jökulsson vill að lögreglan gefi tafarlaust frekari upplýsingar um hryðjuverkamálið. „Lögreglan þarf að gefa umsvifalaust frekari upplýsingar um þá handteknu og hvað vitað er um þá. Hún þarf ekki að kjafta öllu – ef einhverja rannsóknarhagsmuni þarf enn að vernda – en þögn og pukur um svo ógnvænlegar fréttir ganga ekki,“ segir Illugi ákveðinn.
Og Samfélagsrýnirinn úr Grindavík, Björn Birgisson, tjáir sig um málið á vegg sínum á Facebook. Honum virðist nokkuð heitt í hamsi:
Hér fyrir neðan eru molar um það sem vitað er í hryðjuverkamálinu:
- Fjórir íslenskir karlmenn á þrítugsaldri voru handteknir af sérsveitinni í gær í umfangsmiklum aðgerðum í Holtasmára í Kópavogi og á iðnaðarsvæði í Mosfellsbæ.
- Mennirnir eru grunaðir um að undirbúa hryðjuverk og annars vegar innflutning skotvopna, íhluta í skotvopn og skotfæra og hins vegar framleiðslu skotvopna.
- Mennirnir eru grunaðir um að hafa framleitt íhluti í vopn með þrívíddarprentara.
- Tveir þeirra, báðir 28 ára gamlir, hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald, annar í viku, hinn í tvær vikur.
- Húsleit hefur verið framkvæmd á níu stöðum.
- Lögregla hefur lagt hald á tugi skotvopna, þar á meðal hálfsjálfvirkar byssur, ásamt þúsundum skotfæra.
- Brotin varða grein hegningarlaga þar sem kveðið er á um að fyrir hryðjuverk skuli refsa með allt að ævilöngu fangelsi. Fyrir að hóta að fremja slík brot fæst sama refsins.
- Þjóðaröryggisráð var upplýst um aðgerðir lögreglu um það leyti sem þær hófust í gær.
- Lögreglan hefur einnig lagt hald á tölvur og síma.
- Lögregla telur sig vera með stærsta hluta vopnanna í sinni vörslu.
- Allt að 50 lögreglumenn voru að störfum vegna málsins.
- Lögreglan útilokar ekki að fleiri einstaklingar tengist málinu.
- Líklega í fyrsta skipti sem lögreglan á Íslandi hefur rannsakað undirbúning að hryðjuverkum.
- Rannsókn á alvarlegu vopnalagabroti var upphafið að málinu.
- Við rannsókn lögreglu komu fram upplýsingar sem leiddu til gruns um að í undirbúningi væru árásir gegn borgurum ríkisins og stofnunum þess.
- Ætla má að árásarmennirnir hafi beint sjónum sínum að Alþingi eða lögreglu.
- Lögreglan á Íslandi er í samtali við erlend löggæsluyfirvöld en verið er að skoða hvort að einstaklingarnir tengist erlendum öfgasamtökum.