Alma D. Möller heilbrigðisráðherra hefur staðfest nýja reglugerð sem kveður á um takmarkanir á útlitsbreytandi meðferðum með fylliefnum en greint er frá þessu í tilkynningu frá stjórnarráðinu. Markmiðið er að tryggja öryggi þeirra sem undirgangast meðferð með fylliefnum sem er sprautað eða komið með öðrum hætti fyrir, í eða undir húð, í vöðva eða annan vef.
„Reglugerðin tekur einungis til þeirra meðferða sem að framan er getið, en séu slíkar meðferðir ekki gerðar rétt getur það haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Aðrar andlits- og húðmeðferðir sem eru hættuminni, s.s. húðslípun, húðþétting og örnálameðferðir ásamt meðferðum sem framkvæmdar eru með lasertækjum og falla undir reglugerð nr. 171/2021 falla því utan við reglugerðina.
Í 4. gr. reglugerðarinnar er skilgreint hverjum sé heimilt að veita umræddar meðferðir og hvaða skilyrði þarf að uppfylla. Þetta eru læknar með sérfræðileyfi í húðlækningum og lýtalækningum. Enn fremur læknar, tannlæknar og hjúkrunarfræðingar, hafi þeir aflað sér fullnægjandi þekkingar og hæfni til að veita meðferðina, greina og bregðast við fylgikvillum, eða hafi í þjónustu sinni þar til bæran lækni sem getur brugðist við í tæka tíð. Aðeins er heimilt að veita þessar meðferðir á starfsstofu heilbrigðisstarfsmanns sem hefur hlotið staðfestingu landlæknis um að reksturinn uppfylli faglegar kröfur.“