Heitavatnslaust er á Reykjanesskaga eftir að hraun flæddi yfir heitavatnsæðina í gær. Nístingskuldi er á svæðinu og þurftu íbúar að reiða sig á rafmagnsofna og hitablásara til að halda híbýlum sínum heitum.
Almannavarnir ríksins keyptu hitablásara og afhenty í gærkveldi. „Þessir blásarar sem voru keyptir, sem voru um hundrað, voru afhentir aðgerðastjórn á Suðurnesjum til að koma til þeirra sem ekki gátu bjargað sér sjálf um slíkan,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri Almannavarna í samtali við fréttamann RÚV.
Enn er heitavatnslaust á svæðinu en fagaðilar vinna nú hörðum höndum að því að tengja nýja lögn. Viðbúið er að kalt verði enn á svæðinu í dag.
„Um leið og við vitum svona tímalínuna á deginum, hvenær fyrir það fyrsta verður hægt að tengja þetta, þá höfum við einnig talað um það að þegar búið er að tengja mun taka tíma að koma hitanum á kerfið. Þannig að það verður kalt í dag áfram og svo vonum við að þetta gangi hratt og örugglega fyrir sig,“ bætir Hjördís við.