Föstudagur 27. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

„Þrátt fyrir allt sem hér má gera enn betur er gott að búa á Íslandi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Við getum fagnað því, og litið á það sem jákvætt teikn, að víða um heim eru viðbrögð okkar lofuð og talin til eftirbreytni. Þessu megum við fagna og muna að þrátt fyrir allt sem hér má gera enn betur er gott að búa á Íslandi, ekki síst þegar fólk tekst á við vanda í sameiningu,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, þegar hann er spurður um hvort einhver jákvæð teikn megi finna á tímum COVID-19. Forsetinn segir að ýmis jákvæð teikn megi finna og hrósar íslensku þjóðinni fyrir lofsverða samstöðu á mæðusömum tímum meðan þjóðin sé annars ekki þekkt fyrir að lúta aga mjög vel.

Ekki má gleyma því að Íslendingar hafa látið lífið í faraldrinum, fjöldi fólks hefur misst atvinnu sína og efnahagserfiðleikar blasa við fjölda fyrirtækja og heilu atvinnugreinunum. Guðni leggur á það áherslu um leið og hann veltir fyrir sér þeim jákvæðu teiknum sem faraldurinn geymir. „Það segir sig sjálft að ekkert, nákvæmlega ekkert, er jákvætt við farsótt sem leggur fólk að velli víða um heim. Þar að auki valda nauðsynlegar aðgerðir til að vernda líf og heilsu okkar miklum efnahagslegum skakkaföllum. Enn er langt í að veiran skæða verði yfirbuguð og lyf eða bóluefni fundin sem duga gegn henni. Og hagtjónið verður enn meira áður en yfir lýkur,“ segir Guðni.

„En það mun birta til. Í því liggur vonin. Von sem er byggð á raunsæi, þrátt fyrir allt, og þá getum við líka horft til þess hvernig brugðist hefur verið við vágestinum, ekki síst hér á landi. Hér má finna mörg jákvæð teikn. Við erum sjálfstæð í hugsun á þessu landi og ekki þekkt fyrir að lúta aga sérlega vel. Engu að síður hefur þjóðin sýnt lofsverða samstöðu þessa erfiðu og mæðusömu daga. Almennt hefur fólk ákveðið að fylgja reglum, tilmælum og leiðbeiningum um varnir gegn veirunni. Við höfum áður sýnt og sýnum það aftur nú að þegar á þarf að halda stöndum við saman.“

Settu sig ekki á háan hest

Guðni forseti sér tilefni til að hrósa stjórnmálamönnum fyrir að hafa staðist þá freistingu að nýta faraldurinn til að auka eigin vinsældir. „Ráðamenn hafa ekki heldur nýtt ástandið til að auka eigin völd og taumhald á borgurunum. Sú hætta er alltaf fyrir hendi við aðstæður af þessu tagi að valdhafar sækist eftir sviðsljósinu til að afla sér fylgis og atkvæða. Þegar fullnaðarsigur hefur unnist hér eigum við að þakka fólkinu í fylkingarbrjósti og fólkinu sem stóð í ströngu, heilbrigðisliði okkar og öðrum sem sinntu sínum störfum af mikilli samviskusemi við erfiðar aðstæður,“ segir Guðni.

„Við höfum einnig sýnt að við erum reiðubúin að treysta ráðgjöf og forystu þeirra sem best þekkja til í almanna- og veiruvörnum. Þetta höfum við gert óháð því hvort valdboði var beitt, og kunnum því vel að sérfræðingar okkar settu sig ekki á háan hest. Þetta er líka jákvætt teikn sem gott er að muna þegar fram líða stundir.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -