Róbert Wessman græddi persónulega á tá og fingri á síðasta ári en aðra sögu má segja um fyrirtæki hans, Alvotech, sem tapaði 76,1 milljarði króna.
Samkvæmt frétt Heimildarinnar tapaði Alvotech 76,1 milljarði í fyrra, ef miðað er við meðalgengi dals á árinu 2023 en árið á undan tapaði fyrirtækið 73,3 milljörðum. Samanlagt hefur Alvotech því tapað 149,4 milljörðum króna síðustu tvö ár.
Forstjóri Alvotech, Róbert Wessman fékk 209,3 milljónir króna í laun í fyrra. Það gera um 17,4 milljónir króna að meðaltali á mánuði. Þetta þýðir um 573,424 þúsund krónur á hverjum einasta degi ársins. Róbert er einnig stjórnarformaður Alvotech en hann afsalaði sér launum fyrir þá vinnu samkvæmt Heimildinni. Níu aðrir framkvæmdastjórar og lykilstarfsfólk fengu samtals 740,5 milljónir króna í laun í fyrra, eða um 82,3 milljónir króna hver að meðaltali. Það gera um 6,9 milljónir króna að meðaltali á mánuði á hvern þeirra.