Íslandsdeild Amnesty International fordæmir brottvísanir íslenskra stjórnvalda á umsækjendum um alþjóðlega vernd sem eru mansalsþolendur. Kemur þetta fram í tilkynningu frá deildinni.
Á dögunum var þremur konum frá Nígeríu vísað frá Íslandi og þær sendar aftur til Nígeríu, ásamt karlmanni sem einnig fékk synjun um hæli hér á landi. Konurnar segjast allar þolendur mansals en ein þeirra, Blessing Newton er með sex æxli í legi og þarf á bráðaþjónustu að halda.
Í yfirlýsingu Íslandsdeildar Amnesty International segir meðal annars:
„Deildin harmar þá ómannúðlegu og vanvirðandi meðferð stjórnvalda á þeim viðkvæma og sérstaka hópi umsækjenda sem sviptur var frelsi sínu og þvingaður var úr landi aðfaranótt 14. maí sl. Íslandsdeildin hefur ítrekað gagnrýnt brottvísanir viðkvæmra hópa og harðneskjulega stefnu íslenskra stjórnvalda í málum einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Íslandi.“
Þá er vísað í skýrslu Evrópuráðsins um kynbundið umsóknir um alþjóðlega vernd en þar kemur fram að ofsóknir á hendur konum og stúlkum séu oft á tíðum öðruvísi en ofsóknir sem karlmenn verða fyrir. Þar segir að konur og stúlkur eigi frekar á hættu að verða fyrir kynbundnum ofsóknum og ofbeldi á borð við kynferðisofbeldi, þvinguð hjónabönd og mansal. Segir ennfremur að þing Evrópuráðsins kalli eftir því að kynbundið ofbeld, sem og kynbundnar ofsóknir verði metnar á viðeigandi hátt við meðferð hælisumsókna í aðildarrikjum þess.
„Þá er Ísland einnig aðili að Palermósamningnum auk bókana við hann, þar á meðal bókunar til að koma í veg fyrir, berjast gegn og refsa fyrir verslun með fólk, einkum konur og börn. Samkvæmt Istanbúlsamningnum skulu aðildarríki gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að virða þá meginreglu í samræmi við skyldur þjóðaréttar að vísa hælisleitanda ekki aftur þangað sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu.“
Að lokum hvetur Íslandsdeildin íslensk yfirvöld til að enduskoða „harðneskjulega stefnu sína“:
„Deildin áréttar jafnframt mikilvægi þess að tekið sé sérstakt tillit til stöðu og þarfa kvenna og stúlkna við mat á umsóknum um alþjóðlega vernd á Íslandi. Kyn og kyngervi skiptir miklu máli þegar fjallað er um málefni flóttafólks. Það er staðreynd að staða kvenna í neyð og á flótta er sérstaklega viðkvæm þar sem þær standa frammi fyrir fjölþættri mismunun, svo sem kynbundinni mismunun og kynferðislegu ofbeldi.
Með vísan til framangreindra viðmiða, umfjöllunar um aðstæður mansalsþolenda og einstaklingsbundinna aðstæðna umsækjenda hvetur Íslandsdeild Amnesty International íslensk stjórnvöld til að endurskoða harðneskjulega stefnu sína varðandi brottvísanir þeirra umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. mansalsfórnarlömb.“
Hér má lesa yfirlýsinguna í heild sinni.