Andlát Guðbjargar Svövu Guðmundsdóttur er til rannsóknar hjá lögreglu en Mannlíf fékk það staðfest hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra. Heimildir Mannlífs herma að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti en lögreglan vildi ekki staðfesta það.
Guðbjörg lést í október síðastliðnum en hún var aðeins 37 ára gömul og hafði glímt við ýmsa erfiðleika í lífinu. Eiginmaður hennar, Tómas Waagfjörð, var stunginn til bana á Ólafsfirði þann 3. október 2022 og ræddi Guðbjörg harmleikinn við Mannlíf. Guðmundur Sigurður Guðmundsson, faðir Guðbjargar, minnist dóttur sinnar á Facebook með fallegum orðum en hann missti eiginkonu sína sama dag og Guðbjörg lést. „Sorgin hefur sótt mig heim. Konan mín Annika. lést í fangi mínu snemma í morgun. Samtímis missti ég yngri dóttur mína Svövu,“ skrifaði Guðmundur.
Guðbjörg Svava lætur eftir sig tvo syni. Annar þeirra er aðeins þriggja ára gamall.