Anna Kristjánsdóttir skrifar um þætti Óttars Sveinssonar um sjóslys við Ísland og um mikilvægi frásagna skipsbrotsmanna af þessum slysum, í nýjustu dagbókarfærslu sinni.
Dagbókarfærsla Önnu Kristjánsdóttur, Tenerife-búa, fjallar í dag um þætti Óttars Sveinssonar sem hún hefur verið að horfa á að undanförnu. Þættirnir fjalla um hin ýmsu sjóslys sem Óttar hefur skrifað um í Útkalls bókum sínum í gegnum tíðina. Þar tekur Óttar viðtöl við þá sem lifðu slysin af og veitir innsýn inn í þær hræðilegu lífsreynslur. Dáist Anna að Óttari fyrir þættina.
„Dagur 1669 – Þögn.
Anna, sem sjálf er vélstjóri segir mann sem aldrei vildi segja frá sinni reynslu, hafi skyndilega birst í þætti Óttars. „Sá hinn seinni hafði aldrei viljað tala um þessa hræðilegu lífsreynslu og sjálf virti ég það við hann og gekk aldrei á hann að segja frá þessu sjóslysi. Skyndilega birtist hann í Útkallsþætti á Vísi.is og tjáði sig um þessa örlagaríku nótt og baráttuna fyrir að halda lífi í nánast vonlausum aðstæðum uns þeim var bjargað með hjálp þyrlu frá danska varðskipinu Vædderen. Loksins fengum við að heyra sögu fleiri en einungis eins af Suðurlandinu. Sögur þessara skipbrotsmanna eru okkur hinum svo verðmætar og kenna okkur svo mikla sögu um afrek fólks sem lifði af.“
Í dagbókarfærslunni talar Anna einnig um mikilvægi þess að byrgja ekki tilfinningar sínar um slík afrek að lifa af sjóslys, inni. „Við höfum heyrt um ótrúleg afrek fólks sem lifði af hræðileg sjóslys, en þar sem viðkomandi loka allt inni í sínum eigin tilfinningum. Við vitum um Hellisey sem fórst nærri Vestmannaeyjum og þar sem einn skipverjinn náði syndandi í land. Við vitum einnig um togarann Hallgrím hvar einn lifði af og var fleiri klukkutíma í sjónum áður en honum var bjargað. Hvorugur þessara hetja vill tjá sig um lífsreynslu sína síðar meir, enda veit ég ekki til þess að þeir hafi fengið áfallahjálp eftir slysin.“