Mánudagur 13. janúar, 2025
6.8 C
Reykjavik

Anna getur ekki þagað lengur: „Svo þykjast Samtökin 22 ekki vera transfóbísk“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Anna Kristjánsdóttir svarar Samtökunum 22 fullum fetum í nýjustu dagbókarfærslu sinni á Facebook.

Anna Kristjánsdóttir, sem er sennilega þekktasta trans kona Íslands, skrifaði færslu í morgun á Facebook þar sem hún tjáir sig um transfóbíu. Er um að ræða framhald af því sem hún byrjaði á um daginn en þá talaði hún um það sem hún kallar „transfóbíu Samtakanna 22“ en Anna segist hafa verið beðin um að tala ekki um að samtökin ætluðu sér að halda „transfóbíska ráðstefnu“ í Reykjavík, sama dag og gleðigangan var haldin. „Og ég varð við því, þótt helst hefði ég viljað mæta á staðinn og láta þau heyra það frá fyrstu hendi.“

Sjá einnig: Formaður meintra haturssamtaka svarar Önnu Kristjáns: „Ágreiningur er ekki hatur“

Anna segir síðan frá ungri íslenskri trans konu sem hún hitti á Tenerife um daginn en henni hefði hún kynnst er konan var trans barn. „Hún er nú komin vel yfir tvítugt, gullfalleg og brosandi, geislandi af lífshamingju, er í háskóla og á sinn kærasta og allt leikur í lyndi. Hún er að mestu búin að ljúka flestum eða öllum aðgerðum, en semsagt, hún er þar sem hún vildi komast, þökk verið kynþroskatefjandi lyfjum,“ skrifaði Anna og sagði að stúlkan hefði fengið slík lyf þar til hún var orðin nógu gömul til að ákveða hvað hún vildi. Bætti svo við: „Hér skulum við athuga eitt. Kynþroskahamlandi lyf tefja kynþroskann og eru afturkræf, en án hans kemur kynþroskinn á fullu og hann er óafturkræfur öfugt við kynþroskahamlandi lyf.“

Því næst snýr Anna orðum sínum að Samtökunum 22. „Samtökin 22 segjast ekki hafa neitt á móti transfólki, en hvernig á að túlka orð eins meðlims umræddra samtaka er hann vildi tjá sig um orð fyrrum formanns Trans-Ísland, Uglu Stefaníu sem lauk aðgerðarferli fyrir meir en 11 árum síðan. Það sem hann sagði var einfaldlega þetta:

Friðgeir Sveinsson Hvað heitir hann aftur þessi ?“ Þá lýsir Anna hverju hún sjálf hefur þurft að ganga í gegnum sem trans kona. „Ég þarf vart að taka fram að ég hefi oft fengið viðlíka skilaboð, verið lamin auk þess sem fólk hefur hrint mér, keyrt yfir tærnar á mér, hellt yfir mig úr glösum sínum á veitingastöðum og margt fleira, en sem betur fer hefur flest fólk séð að sér, en það er greinilegt að sumir eru enn fastir i gamla farinu með sína transfóbíu, þar á meðal meðlimir Samtakanna 22 sem virðast ala á transfóbíunni.“

Í lokakafla færslunnar segist Anna hafa verið löngu hætt í baráttu sinni fyrir réttindum transfólks en „þegar Samtökin 22 sem virðast einblína á hatur sitt gagnvart transfólki í stað þess að einblína á baráttu fyrir réttindum samkyhneigðra láta í sér heyra, get ég ekki þagað lengur.“

Færsluna má lesa hér í heild sinni:

- Auglýsing -

Dagur 1463 – Enn um transfóbíu.

Um daginn fjallaði ég aðeins um transfóbíu Samtakanna 22, en var beðin um að sleppa því að nefna það að þau ætluðu að halda transfóbíska ráðstefnu í Reykjavík sama dag og gleðigangan (af hverju sama dag?) og ég varð við því, þótt helst hefði ég viljað mæta á staðinn og láta þau heyra það frá fyrstu hendi.
Um daginn hitti ég unga íslenska konu hér á Tenerife sem var á ferð hingað ásamt fjölskyldu sinni. Ég kynntist henni sem transbarni fyrir rúmum fimmtán árum síðan, en móðir hennar hefur stutt hana alla tíð í þrá sinni að fá að vera það sem hún vissi alla tíð og höfum ég og móðir hennar þekkst jafnlengi, enda kynntumst við vegna þessa. Ég hafði ekki hitt stúlkuna í nokkur ár fyrr en við hittumst um daginn og af því að ég vil ekki hnýsast of mikið og spyrja fólk hvernig gengi, vissi ég ekki hvernig henni gengi fyrr en ég hitti hana ásamt fjölskyldu sinni.
Hún er nú komin vel yfir tvítugt, gullfalleg og brosandi, geislandi af lífshamingju, er í háskóla og á sinn kærasta og allt leikur í lyndi. Hún er að mestu búin að ljúka flestum eða öllum aðgerðum, en semsagt, hún er þar sem hún vildi komast, þökk veri kynþroskatefjandi lyfjum.
Þegar hún komst á kynþroskaaldur fékk hún lyf sem ollu töfum á kynþroska hennar og var á þeim uns hún var nógu gömul til að ákveða sjálf hvað væri best fyrir hana sjálfa og gekk þá alla leið með kynleiðréttingu og það er ekki hægt að ímynda sér að hún hafi nokkru sinni verið líkamlegur strákur.
Hér skulum við athuga eitt. Kynþroskahamlandi lyf tefja kynþroskann og eru afturkræf, en án hans kemur kynþroskinn á fullu og hann er óafturkræfur öfugt við kynþroskahamlandi lyf.
Samtökin 22 sem segjast vera einasti alvörubaráttuhópurinn fyrir samkynhneigða hafa lagt mikla baráttu í að lækna þessi börn frá transsexualisma í stað þess að einbeita sér að baráttu fyrir réttindum samkynhneigðra. Ég þarf vart að taka fram að þessi unga stúlka fyrirlítur þessi samtök og formann þeirra af öllu sínu hjarta, enda vill hún ekki hugsa til þess hvað hefði gerst ef skoðanir formanns Samtakanna 22 hefðu orðið ofan á varðandi meðferð transbarna fyrir réttindum sínum.
—–
Samtökin 22 segjast ekki hafa neitt á móti transfólki, en hvernig á að túlka orð eins meðlims umræddra samtaka er hann vildi tjá sig um orð fyrrum formanns Trans-Ísland, Uglu Stefaníu sem lauk aðgerðarferli fyrir meir en 11 árum síðan. Það sem hann sagði var einfaldlega þetta:
Friðgeir Sveinsson Hvað heitir hann aftur þessi ?
Ég þarf vart að taka fram að ég hefi oft fengið viðlíka skilaboð, verið lamin auk þess sem fólk hefur hrint mér, keyrt yfir tærnar á mér, hellt yfir mig úr glösum sínum á veitingastöðum og margt fleira, en sem betur fer hefur flest fólk séð að sér, en það er greinilegt að sumir eru enn fastir i gamla farinu með sína transfóbíu, þar á meðal meðlimir Samtakanna 22 sem virðast ala á transfóbíunni. Eftir þetta komu athugasemdir, allar jafn transfóbískar þar sem gefið var í skyn að Samtökin 78 hefði beitt sér fyrir translíkum áróðri gegn því að Samtökin 22 fengju að halda sína transfóbísku ráðstefnu.
Svo þykjast Samtökin 22 ekki vera transfóbísk.
Ég gæti tínt til mörg svona dæmi þótt ekki nenni ég að lesa í gegnum öll óvinveittu orðin um mig eftir að ég ritaði um transfóbíu í síðustu viku þó að þau jákvæðu séu margfalt fleiri. Síðasta dæmið um baráttu Samtakanna 22 gegn réttindabaráttu hinsegin fólks er það að þau ákváðu að halda ráðstefnu í Reykjavík, síðar í Kópavogi, um stefnu sína og baráttuna gegn því að transbörnum yrðu gefin kynþroskahamlandi lyf þar til þau hefðu sjálf þroska til að meta hvað væri þeim fyrir bestu. Að sjálfsögðu var ráðstefnan haldin á sama degi og gleðiganga Reykjavík Pride var haldin og þá í sal Miðaldaflokksins í Kópavogi.
Svo kemur önnur spurning: Ef Samtökin 22 sem telja sig vera samtök sem eru að reyna að verja hagsmuni samkynhneigðra, eyða öllu sínu púðri í að tala niður til transfólks, hver eru þá markmið þeirra?
Er hægt að líta á orð þeirra á annan hátt en sem fyrirlitningu gagnvart transfólki?
—–
Ég var löngu hætt þátttöku í baráttu transfólks fyrir réttindum sínum og viðurkenningu, en þegar Samtökin 22 sem virðast einblína á hatur sitt gagnvart transfólki í stað þess að einblína á baráttu fyrir réttindum samkyhneigðra láta í sér heyra, get ég ekki þagað lengur.
Með þessum orðum ætla ég að halda áfram að vera ellilífeyristaki sem fylgist samt með þjóðfélagsumræðunni á Íslandi, en samt úr hæfilegri fjarlægð frá Paradís þar sem transfóbía fær ekki að dafna, ekki frekar en hómófóbía, en ég er tilbúin að berjast fyrir réttindum okkar sem og baráttunni þar til að eldur fordómanna verður slökktur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -