Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Anna rifjar upp hið mannskæða Estonia-slys: „Hún kom aldrei til baka“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Þrjátíu ár eru liðin frá einu mannskæðasta sjóslysi sögunnar er farþegaferjan Estonia fórst í Eystrasalti. Anna Kristjánsdóttir rifjar upp þegar fregnir bárust um slysið en hún kannaðist við einn farþegann sem fórst.

„Í nótt voru liðin 30 ár frá þessu hræðilega sjóslysi.

Ég var á næturvakt við Hässelbyverket, kraftvarmaveri í Hässelby í úthverfi Stokkhólms, nýlega komin heim til Stokkhólms frá Eystrasaltslöndum og ég var á ketilvaktinni sem gengur út á það að allir gufukatlar eru skoðaðir frá toppi og niður úr, athugaður eldurinn og allir brennarar sem og kvarnir, verk sem tók kannski tvo til þrjá tíma í upphafi hverrar vaktar og síðan gjarnan annar styttri hringur þegar leið á vaktina. Þegar verkinu var lokið fór ég upp í setustofu stjórnstöðvar þar sem allir sátu þögulir fyrir framan sjónvarpið. Ég hélt fyrst að þeir hefðu verið að horfa á einhverja kvikmynd því textaræma rann niður eftir skjánum.“ Þannig hefst nýjasta dagbókarfærsla vélstjórans Önnu Kristjánsdóttur en færslan er af afar skiljanlegum ástæðum í alvarlegri kantinum enda um að ræða gríðarlega mannskætt sjóslys.

Anna heldur áfram:

„Þetta var ekki textaræma eftir kvikmynd heldur voru þetta textaboð í beinni útsendingu frá SVT um hvað var að gerast á þeirri stundu í Eystrasaltinu. Ferjan Estonia sem var á leið frá Tallinn til Stokkhólms hafði farist og fjöldi fólks að berjast fyrir lífi sínu í sjónum. Skip og bátar voru á leiðinni að slysstað sem og allar tiltækar björgunarþyrlur.
Ég ætla ekki að byrja á að þylja upp sögur af ferjunni né orsökum þess að henni hvolfdi, en þessa nótt fórust 852 manneskur með skipinu, farþegar og áhöfn, en einungis 137 komust af. Af þessum 852 var 461 Svíi, sumar heimildir segja 501 Svíi. Þetta sjóslys er eitt versta sjóslys nærri Evrópuströndum á friðartímum. Það var átakanleg að heyra lýsingar þeirra sem komust af eða eins og einn eftirlifandi orðaði það: Hetjurnar dóu, einungis þeir sem hugsuðu bara um að bjarga sjálfum sér, lifðu af.“

Anna kannaðist við eitt fórnarlambið í slysinu, hana Irmu og segir frá stuttum kynnum sínum af henni:

„Þremur vikum fyrr hafði ég sótt nýtt vegabréf á lögreglustöðina í Jakobsberg og sú sem afgreiddi mig og var orðin kunnug mér, (merkilegt nokk, þá átti ég stundum erindi á lögreglustöðina og alltaf tók Irma vel á móti mér og skráði kvartanir mínar), fór einmitt að segja mér að hún væri sjálf að fara fljótlega í ráðstefnuferð til Tallinn með Estonia ásamt stórum hóp borgaralegra starfsmanna lögreglunnar í Stokkholms län. Því miður er ég búin að gleyma hinu finnska eftirnafni hennar, en mig minnir að nafn hennar hafi verið Irma. Hún kom aldrei til baka. Að sögn Jöru vinkonu minnar, íslenskrar starfskonu hjá lögreglunni í Stokkhólmi sem komst ekki með í ferðina, voru heilu deildirnar hjá lögreglunni nánast mannlausar eftir slysið.
Það var ekki farinn annar ketilhringur þessa nótt sem var mér ógleymanleg sem og öðrum sem voru vakandi þessa nótt.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -