Föstudagur 15. nóvember, 2024
2.7 C
Reykjavik

Anna snarhætti að reykja eftir heimsókn frænku sinnar: „Þetta varð sem áfall fyrir mig“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Anna Kristjánsdóttir minnist tveggja tímamóta í lífi hennar í nýjustu dagbókarfærslu sinni frá Paradís. Þar segir hún frá því er hún missti af fæðingu frumburðar síns annars vegar og hins vegar þegar hún ákvað að hætta að reykja.

Vélstjórinn fyndni, Anna Kristjánsdóttir skrifaði dagbókarfærslu á Facebook í morgun þar sem hún rifjar upp minningar um tvö merkileg tímamót í hennar lífi. Segir hún frá því er dóttir hennar fæddist fyrir 48 árum síðan á meðan Anna var á sjó en vegna einskærrar óheppni missti hún af fæðingu frumburðarins. Þá segir hún einnig frá því hvað varð þess valdandi að hún ákvað að hætta að reykja fyrir 23 árum síðan. Færsluna má lesa í heild sinni hér að neðan.

„Dagur 1454 – Minningar.

Á þessum degi fyrir 48 árum var ég úti á sjó þegar ég fékk skeyti frá útgerðinni þess efnis að dóttir mín væri fædd. Þetta gekk ekki þrautalaust. Ég hafði sótt um frí fyrrihluta ágústmánaðar og fengið. Þegar við komum í land til að taka þátt í þjóðhátíð hélt ég til Reykjavíkur, en það voru fullar vélar til Eyja, en tómar til Reykjavíkur. Í þessari vél voru samt tveir farþegar, ég sem ætlaði að vera viðstödd fæðingu dóttur minnar og Kristján Torfason þáverandi bæjarfógeti í Vestmannaeyjum, en hann hafði látið loka Ríkinu í Vestmannaeyjum á þriðjudegi fyrir þjóðhátíð og við slíkar aðstæður var eins gott að koma sér í burtu til að vera ekki laminn af reiðum þjóðhátíðargestum.
Maðurinn sem átti að leysa mig af kom til Vestmannaeyja, vanur maður sem hafði verið á skipinu er það var gert út frá Hafnarfirði, alveg prýðismaður en nú látinn fyrir löngu síðan. Hann kom um borð og ætlaði að kíkja við niðri í vélarúmi er hann kom um borð, en hrasaði í stiganum niður í vél og fótbrotnaði. Þar með lauk ætlun hans til að leysa mig af og ég þurfti að fara aftur um borð.
Eins og allir vita sem þekkja mig hlýddi ég slíkum fyrirskipunum og fyrir bragðið var ég víðs fjarri er frumburðurinn minn fæddist þann 6. ágúst árið 1975.
Tveimur og hálfum mánuði síðar, var dóttir mín hugsanlega yngsti þátttakandinn í kvennagöngunni og útifundi á Lækjartorgi þann 24. október 1975, en að sjálfsögðu tók ég þátt með dóttur mína í barnavagni.
—–
Nærri 25 árum síðar kom ætluð frænka mín til Íslands. Hún hafði aldrei komið til landsins áður þó af íslensku foreldri, en vegna sjúkdóms hennar var ekki talið óhætt að leyfa henni að fara í flug. Þarna fékk hún samt heimild til slíks, en þegar ég hitti hana eftir að hún kom til Íslands, áttaði ég mig betur á sjúkdómnum, lungnaþemba vegna reykinga. Hún var í mikilli yfirvigt, komin í hjólastól, notaðist við súrkút og keðjureykti. Ég reykti líka á þessum tíma, en þetta varð sem áfall fyrir mig og ég ákvað að hætta að reykja, hvað sem það kostaði.
Ég hafði lesið það einhversstaðar að besta leiðin til að hætta að reykja væri sú að ákveða dag og stund með góðum fyrirvara og þarna í lok júní árið 2000 ákvað ég að hætta að reykja á hádegi á 25 ára afmælisdegi dóttur minnar. Þegar kom að hádegi umræddan dag átti ég enn til hálfan pakka af sígarettum svo að ég frestaði því að hætta að reykja uns pakkinn væri búinn. Það tókst á endum að klukkan 15.00 drap ég í síðustu sígarettunni og hefi aldrei reykt eina einustu sígarettu eftir það.
Af Lindu er það að segja að hún lést árið 2006 úr lungnaþembu þó hún hafi þá verið löngu hætt að reykja og búin að léttast um helming fyrstu árin eftir aldamót. Síðan eru liðin 23 ár.
—–
Ætlunin var sú að minnka skrifin á sunnudögum, en vegna afmælis dóttur minnar og reykingaafmælis míns, varð ég að tjá mig, en svo verða mikilvæg skrif á mánudag, frídag verslunarmanna. Ég verð samt að tilkynna sigur hetjanna okkar hjá Fótboltasamvinnufélagi Halifaxhrepps á Bromley 2:0 og sitja hetjurnar núna í þriðja sæti í fimmtudeild.
En ég lofa ykkur því að ég verð þögul næsta sunnudag.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -