Mannlíf hefur aflað sér upplýsinga um hina meintu hryðjuverkamenn sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók á dögunum.
Á blaðamannafundi í gær sagðist lögreglan hafa farið í 17 húsleitir og lagt hald á 60 munum með rafrænum gögnum á borð við síma og tölvur, við rannsókn málsins. Hafa gögn úr þeim verið send lögregluliðum erlendis, bæði á Norðurlöndum og Europol. Ekki vildi lögreglan gefa upplýsingar um grun um tengsl grunaðra við erlenda öfgahópa né aðdáun þeirra á Anders Behring Breivik.
Þá sagði Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri sig frá rannsókninni eftir að húsleit var gerð heima hjá föður hennar, sem er þekktur byssusmiður og vopnasali.
Samkvæmt heimildum Mannlífs er annar þeirra sem er í gæsluvarðhaldi, grunaður um að skipuleggja hryðjuverkin, með hreina sakaskrá og ekki þekktur fyrir ofbeldi af neinu tagi. Hann er aftur á móti þekktur fyrir að hafa sterkar hægri skoðanir.
Hinn aðilinn, sem er grunaður um vilja til hryðjuverka, er byssusafnari. Heimildir Mannlífs eru þær að byssur hans séu skráðar og geymdar í læstum skápum, eins og skylda er. Hermt er að mennirnir tveir þekkist og hafi gasprað sín í milli um hryðjuverk sem sé grunnurinn að aðgerðum lögreglunnar. Þær raddir eru uppi meðal aðstandenda mannanna að umfang rannsóknarinnar sé langt umfram það að teljist eðlilegt. Allar þær húsleitir sem farið hafi verið í teljist vera tilviljanakenndar og ekki trúverðugar.
Mennirnir verða báðir í gæsluvarðhaldi í að minnsta kosti viku í viðbót, áður en ákveðið verður um framhaldið