Yfirmaður hjá lögreglunni á Suðurlandi hefur verið sendur í leyfi frá störfum en þetta herma heimildir RÚV. Er þar með enn einn yfirmaður hjá lögreglunni sendur í leyfi.
Maðurinn er sagður hafa verið sakaður um að hafa brotið gegn samstarfskonu sinni en málið var fyrst sent til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara þar sem það var látið niður falla í nóvember. Konan kærði í framhaldinu ákvörðunina til ríkissaksóknara þar sem málið er nú. Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari staðfesti við Ríkisútvarpið að kæran hafi borist 29. nóvember.
Samkvæmt RÚV áttu meint brot sér stað utan vinnutíma.
Enn einn yfirmaðurinn
Er þetta enn einn yfirmaðurinn hjá lögreglunni á Íslandi sem sendur er í leyfi á tiltölulega stuttum tíma en í september í fyrra var Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sendur í leyfi en hann var sakaður um að áreita samstarfskonu sína kynferðislega um nokkra mánaða skeið. Hulda Elsa Björgvinsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu og sviðsstjóri ákærusviðs, hætti störfum í apríl í fyrra eftir að hafa farið í leyfi í desember í í hittifyrra eftir úttekt sálfræðistofu á ákærusviðinu. Þá sagði RÚV frá því í mars í fyrra að yfirlögregluþjónn hjá embættinu hafi verið sendur í leyfi vegna ásakana um kynferðislega áreitni á gleðskap lögreglufólks. Hann er kominn aftur til starfa nú.