Annþór Kristján Karlsson talar í viðtali við Reyni Traustason meðal annars um tímann í fangelsinu en í allt sat hann inni í um 12 ár. Hann talar um skoðun sína á því hvernig honum finnst að fangelsismál ættu að vera hér á landi og hann talar um daginn í dag en Annþór hefur lagt áherslu á að mennta sig og ætlar að halda áfram að vera í námi næstu árin.
„Ég er búinn að sitja inni í heildina í 12 ár af ævinni,“ segir Annþór Kristján Karlsson og segir að þar með sé sá tími sem hann var með ökklaband og á Vernd; þetta sé allt fangelsistími.
Annþór segist halda að fangelsi á Íslandi séu mjög góð ef horft er til heimsvísu. „Þetta er stór heimavistarskóli af böldnum piltum.“
Það er oft sagt „Don’t do the crime if you can’t take the time.“
Var það aldrei erfitt að sitja inni?
„Það er oft sagt „Don’t do the crime if you can’t take the time.“ Auðvitað er þetta misjafnt fyrir mennina sem sitja inni. Það er alveg svoleiðis. Fyrir mig var þetta ekki erfitt en þetta tók náttúrlega rosalega stóran toll af mínum nánustu. Ég á auðveldara með þetta þó það hafi verið ég sem var inni í fangelsi heldur en þeir sem standa manni kannski næst.“
Stéttaskipting í fangelsum berst í tal og er Annþór spurður hvort hann hafi verið gæinn sem öllu réði um tíma í fangelsinu.
„Ekki beint kannski öllu réði. Ég kannski gat stjórnað einhverjum sem ég vildi stjórna. Þetta er ekki eins og í amerískri bíómynd þar sem allir standa í kringum einn og hann ræður öllu og allir passa hann.“
Þarna eru þeir lægstu af öllum sem eru barnaníðingarnir. Þeim er haldið sér.
„Já.“
Þeir eru í hættu innan fangelsisins.
„Já. Fangelsið hefur gert mikið í því að vernda þá. Það er reynt að passa vel upp á þá sem gerast sekir um að misnota börn. Það er erfitt fyrir þá að vera í fangelsi í sjálfu sér. Ég er kominn til að ræða um hvað mér finnst um margt og þá er það bara að þeir eiga ekkert heima í fangelsi. Þeir eiga bara heima á sjúkrastofnun. Þetta er einhver girnd sem er ekki eðlileg og það eru allir sammála um það og fangelsi er ekki að fara að gera neitt; þú setur engan ofan í skúffu og hann kemur upp úr skúffu og er hættur að vera með barnagirnd. Það segir sig bara sjálft. Og yfirleitt er afsökunin hjá þessum mönnum sú að þeir hafi verið svo dópaðir eða þeir hafi verið svo fullir og ég veit ekki hvað. Af hverju eru þá ekki allir sem eru svona dópaðir og fullir að misnota börn út um allan bæ? Af því að það er ekki í þeirra eðli. Það er bara mín skoðun og mér finnst að þessir menn eigi ekki heima þarna. Þeir eiga bara heima á stofnun sem vinnur í því að gera þá að virkum samfélagsþegnum.“
Varstu ekki vondur við barnaníðingana?
Ég var svo mikið í starfi fyrir fanga almennt.
„Ekki þannig. Ég var svo mikið í starfi fyrir fanga almennt. Ég var í Afstöðu sem er félag fanga og var þar í fjölda ára annaðhvort sem meðlimur eða formaður og var mikið í því að skrifa bréf, kærubréf, fyrir fanga af því að staðreyndin er sú að mjög stór hluti fanga er óskrifandi; þá er ég ekki að tala um að þeir séu ekki læsir og skrifandi heldur eru þeir óskrifandi á þessu máli.“
Stofnanamáli.
„Já. Þeir væru „ég er brjálaður út af þessu og fokking fíflið gerði þetta og ég vil að hann fokking fari í rassgat“. Ég verð að afsaka talsmátann hjá mér; en það þurfti að koma orðunum þannig að hlutunum að það væri tekið mark á því. Ég hef skrifað hundruði kærubréfa.“
Nokkrar Kvíabryggjur
Sagt hefur verið að Annþór hafi farið inn sem óstýrilátur krakki og komið út sem glæpamaður.
„Já, það er einmitt hluti af því sem við erum að fara að ræða um núna – það er hvernig ég sé fyrir mér fangelsi eða fangelsismál öllu heldur. Og það er kannski stóri þátturinn í þessu. Ég fór inn í fangelsi sem vandræðaunglingur, dópisti og innbrotsþjófur og kom út með sambönd til þess að fara að flytja inn fíkniefni. Ég kom út í rauninni sem glæpamaður en ekki bara sem smákrimmi. Ég vil að Hólmsheiði sé móttökufangelsi eins og það er; menn séu teknir þar inn og reynt að meta þá eitthvað og reynt að láta þá vera edrú og svo framvegis en svo byrji allir á kvíabryggju. Ég veit ekki hvað það þarf margar Kvíabryggjur; ég er ekki með einhverjar tölur fyrir framan mig. Þarf 10 Kvíabryggjur til að gera þetta? Ég veit það ekki. Við vitum að það að byggja eina Kvíabryggju kostar mörgum sinnum minna heldur en stórt fangelsi með óbrothættum rúðum, öllu í rafmagni, stálhurðum og ég veit ekki hvað. Ég er að tala um að byggja bara venjuleg hús eins og Kvíabryggju nema kannski 10 svoleiðis. Það er alltaf gert ráð fyrir að það eigi að byrja að refsa þeim sem fara í fangelsi; það á reyndar ekki við um alla.
Ég vil sjá fangelsiskerfi þar sem væru þessar 10 Kvíabryggjur, eins og við erum búnir að nefna þær, þar sem væri ein fyrir kynferðisbrotamenn gegn börnum þar sem þeim væri bara sinnt og væru ekki sendir á hinar Kvíabryggjurnar.“ Annþór segir að föngum líði oft illa þegar börn þeirra séu í heimsókn og séu að leika sér fyrir framan menn sem eru dæmdir kynferðisafbrotamenn gegn börnum.
Svo myndi ég vilja sjá unga afbrotamenn sér.
Hann segir síðan að ein Kvíabryggja gæti verið fyrir erlenda fanga sem hafa ekki fasta búsetu hér á landi. „Þeir færu í sérfangelsi til þess að varna því að það myndist þessi stöðugu sambönd af því að þau eru alltaf að endurnýja sig með þessum einstaklingum sem koma til landsins; það kemur einhver gaur sem smyglar dópi innvortis eða í tösku eða hvernig sem hann gerir það: Hann fer á Litla-Hraun. Þar kynnist hann fleirum. Kerfið er að hjálpa við að láta þetta rúlla. Þess vegna vil ég sjá þessa einstaklinga sér.
Svo myndi ég vilja sjá unga afbrotamenn sér af því að þeir eiga ekki að fara með þessum eldri til þess að læra ekki eins mikið þar og fá ekki þessar glansmyndir endilega af mögulega einhverjum sem eru eldri og einhverjar kanónur í fagninu ef það má orða það svoleiðis.
Og svo þessi almenni íslenski eða erlendi fangi sem er búsettur á Íslandi,“ segir Annþór og á þá við enn eina Kvíabryggjuna fyrir þann hóp.
Reglur Fangelsismálastofnunar
Annþór segir að Fangelsismálastofnun eigi ekki að hafa eitthvað vald. „Þeir eiga bara að vinna eftir ákveðnum ramma; ekki að það sé geðþóttarákvörðun hjá stofnuninni hvað þeim þóknast eða ekki. Það á bara að vera þannig að ef þú brýtur af þér til dæmis á Kvíabryggju 3 þá eru það þrír mánuðir eða mánuður eða sex mánuðir eða hvað það er á Hrauninu og svo teygist það ef þú heldur áfram að brjóta af þér þar að sjálfsögðu.“
Annþór talar um annað málefni sem hann segir að sé algerlega galið og það sé að „dómar Íslands dæmi einstakling í fangelsi; ekki að það sé galið heldur að menn fá sama dóm. Dúddi dópisti stelur 300 samlokum og svo kemur fjárglæframaður og stelur þremur milljörðum. Báðir fá þessir einstaklingar þrjú ár. Þeir eru dæmdir til þriggja ára fangelsis. Að sjálfsögðu á ekki að vera eitthvað vald hjá Fangelsismálastofnun af því að annar er fínn í jakkafötum að þá fari hann beint á Kvíabryggju; fær verðlaun bara strax. En Dúddi dópisti sem stal 300 samlokum fer beint á Litla-Hraun. Þeir voru báðir dæmdir í 36 mánaða fangelsi; þriggja ára fangelsi. Og að það sé hægt að refsa öðrum meira heldur en hinum!“
Það er bara rangt.
„Það hlýtur að vera rangt. Nema að þá ætti dómstóllinn að kveða á um það ef það á að vera svoleiðis en ekki Fangelsismálastofnun,“ segir Annþór og bætir við að sér finnist vera alveg galið að stofnunin fái að ráða því hvernig úttekt viðkomandi á að vera: Báðir fengu þriggja ára dóm. „Afsökun þeirra er sú að það séu miklu minni líkur á að þessi í jakkafötunum brjóti af sér.
Svo er annað: Ef þú stelur þremur milljörðum þá færðu helming af dómnum þínum; þarft bara að sitja helming. En ef þú brýtur nefið á öðrum glæpamanni þá þarf ég að sitja 2/3. Og það eru reglur Fangelsismálastofnunar.“
Ég var bara að berja einhverja aðra glæpamenn sem gerðu eitthvað af sér.
Það snýst ekkert um dóminn sjálfan?
„Nei, það skiptir engu hvað þú gerðir. Nú er ég búinn að lifa og hrærast í þessum heimi rosa lengi. Jú, jú, þekktur fyrir það að vera ofbeldismaður en ég var aldrei að berja venjulegt, saklaust fólk úti á götu. Það var ekkert svoleiðis. Ég var bara að berja einhverja aðra glæpamenn sem gerðu eitthvað af sér. Eins og ég segi: Fyrir að kíla annan glæpamann í nefið og fá dóm fyrir það þá fæ ég 2/3 en ef ég ræni þremur milljörðum þá fæ ég helming.“
Þetta er svolítið klikkað; það verður að segjast eins og er.
„Mér finnst það. Svo er annað; gaurinn sem myndi brjótast inn heima hjá þér og stela öllu í kringum þig þegar þú værir sofandi fengi líka helming. En sá sem hefði smyglað inn tveimur kílóum af hassi þyrfti að sitja inn 2/3. Myndi þér ekki finnast sá hættulegri sem væri yfir rúminu hjá saklausum manni heldur en einhver sem flutti inn tvö kíló af hassi?“
Edrú í glæpum
Þú hættir að drekka fyrir mögum árum.
„Já, mér fannst það tiltölulega auðveldara heldur en að hætta í bransanum eins og maður segir. Búinn að vera edrú í rúm 15 ár. En það hélt mér samt ekki frá því að vera í glæpum.“
Þannig að þú varst edrú í glæpum.
„Já.“
Er það ekki svolítið snúið?
„Nei, ég hef ekkert verið feiminn við það; hvort maður var í handrukkunum eða innflutningi eða einhverju. Þú getur alveg eins gert þetta edrú.“
Bara vinna sér inn pening.
„Já.“
Og ég öfundaði þá eitthvað af því og ákvað að skella mér á AA-fundi.
Hann segir það hafa verið AA-tengt að hann hætti í neyslu. „Það kom strákur upp á Litla-Hraun með fundi og mér fannst þeir hafa eitthvað. Það var einhver gleði sem fylgdi þeim; ekki gleðin sem fylgir því þegar einhver á mikinn pening eða var að kaup sér nýjan bíl. Þetta var einhver innri gleði. Og ég öfundaði þá eitthvað af því og ákvað að skella mér á AA-fundi og úr varð að ég fór þá leið.“
Tókst þér strax að hætta?
„Já.“
Í fyrstu tilraun?
„Já. Vandamálið hjá mér var kannski það að mér fannst ég aldrei vera alki. Það var alltaf einhver verri en ég; ég átti mitt hús, pening og það var ekki allt í rúst í kringum mig. Ég var ekkert eins og Halli Hlemmur sem var róni á Hlemmi. Það var allt í góðu hjá mér. Ég náði að verða edrú með hjálp AA-samtakanna og þeirra sporavinnu þar. Svo var það næsta að hætta í bransanum.“
Það var erfitt.
„Það var rosa erfitt. Það var svo erfitt. Ég var búinn að vera þarna inni alla tíð. Og það var svo erfitt að segja „nei, ég er ekki til í þetta“ þegar það var eitthvað sem vinir þínir ætlast til. Þú hefur einhverjum skyldum að gegna innan þessa samfélags. Auðvitað er samfélag innan okkar samfélags. Það eru ákveðnar leikreglur. Það eru ákveðin lög.“
Þú með þetta ægilega orðspor; það er ekki mikið mál að rukka einhvern. Menn bara borga þegar þeir heyra af þér.
„Já, mjög oft. Allavega ef þeir áttu pening.“
Það er ekkert grín að fá þig til að banka.
„Nei, fólki líkar það ekkert vel.“
Nennti ekki þessu veseni, vandræðum, endalaust og vera þessi fígúra: Annþór.
Annþór segist hafa verið dæmdur síðast árið 2011. „Ég fékk einhvern veginn nóg. Fékk nóg af þessu og einhvern veginn nennti þessu ekki; nennti ekki þessu veseni, vandræðum, endalaust og vera þessi fígúra: Annþór.“
Allir skíthræddir við þig.
„Vera þessi fígúra. Mig langaði ekkert að vera þar. Mér líður æðislega í dag. Auðvitað eru mínir dagar upp og niður eins og þínir og allra en ég er ekki með einhver vandamál á herðum mér að gá út um gluggann hvort lögreglan sé að elta mig eða hvort Palli barði Gunna eða Jói rændi af Sigga. Endalaust eitthvað svona vesen.“
Þetta gerðist þegar búið var að loka þig inni í þessari síðustu lotu.
„Já, þá einhvern veginn fékk ég nóg.“
Annþór segir að í desember næstkomandi verði hann ekki lengur á sakaskrá. „Þá verð ég með hreina sakaskrá. Það verður áfangi.“
Hann segir að eitt af því góða við fangelsiskerfið hér á landi sé að föngum sé greitt fyrir að vera í skóla. Og hann nýtti sér það.
„Auðvitað ætti kerfið að vera þannig að það er haldið utan um menn. Mér finnst alltaf vandamálið í fangelsiskerfinu vera að það er fjársvelt kerfi eins og mörg önnur kerfi. Það er erfitt að fara að réttlæta það og kvarta yfir því að fangelsiskerfið sé fjársvelt þegar heilbrigðiskefið er í molum. Auðvitað verðum við að ræða það sem er að og það gleymist oft í þessu að allir þessir einstaklingar sem eru að brjóta af sér kosta ríkið gríðarlega fjármuni og einstaklinga í samfélaginu líka; það er verið að brjótast inn hjá þeim og það er verið að valda þeim eignatjóni. Það er verið að valda einhverjum heilsutjóni. Þessir einstaklingar eru bara fíklar yfir höfuð. Þeir eru dýrir í kerfinu alls staðar. Auðvitað vil ég að það sé nóg af lögreglumönnum en það eru svo margir glæpamenn. Og það þarf einhver að vera að rannsaka þetta. Og dómarar; það þarf að borga peninga þangað. Alls staðar blæðir kerfinu út af mönnum eins og ég var. Ég var ógeðslega dýr einstaklingur fyrir samfélagið þannig að það er til ofboðslega mikils að vinna við það að ná hverjum og einum einstaklingi til baka. Og það er mín skoðun að það ætti að setja meiri pening í þennan málaflokk af því að það verður enginn betri af því að setja hann ofan í skúffu og taka hann úr skúffunni eftir eitt, tvö, þrjú, fjögur, fimm eða kannski 19 ár.
Sýknaður
Annþór er spurður hverju hann sjái mest eftir þegar hann lítur um öxl.
Ég er í skóla endalaust og mér gengur vel í því.
„Ég veit það ekki. Það er svo ofboðslega margt sem maður hefur gert af sér sem er ekki fallegt og er ekki gott. Ég held að maður þurfi frekar að horfa fram á veginn og reyna að gera betur í því sem er fyrir framan sig heldur en að dvelja endalaust í því sem maður gerði. Ég er í skóla endalaust og mér gengur vel í því; ég er að mennta á mér rassgatið og ég er sáttur.“
Hann segist vera húsasmíðameistari og byggingaiðnfræðingur. „Um jólin verð ég með BS í byggingafræði en ég ætla að verða húsasmíðameistari, múrarameistar og málarameistari og ég ætla að verða byggingaiðnfræðingur og byggingafræðingur. Ég ætla að vera með uppáskriftarréttindi fyrir teikningar.“ Hann vill líka fá réttindi sem matsmaður.
Hvað ætlar þú að gera við þetta allt?
„Ég á enga lífeyrissjóði eða neitt þess háttar; ég er illa settur samfélagslega er við horfum beint á það og einhvern veginn verði ég að búa mér til peninga. Ég vil gera það með því að mennta á mér rassgatið núna í einhvern smátíma þannig að ég geti átt langan starfsaldur. Þótt ég sé með heilsuna í dag og mjög hraustur þá veit ég ekkert hversu lengi heilsan heldur. Ef heilsan fer á einhverjum punkti að gefa sig þá á ég mér langan starfsaldur með því að geta skrifað upp á og verið í eftirliti.“
Annþór segist lifa einföldu lífi í dag og að sér finnist það vera æðislegt.
Ferðu snemma að sofa?
„Nei, ég er með svefnröskunarvandamál. Ég get sofið endalaust. Ég vakna alltaf þreyttur. Þetta er víst einhver sjúkdómur. Þetta er mjög leiðinlegt. Það skiptir engu máli hvort ég sofi þrjá tíma eða 12. Ég vakna alltaf þreyttur.“
Það hlýtur að vera kostur að geta sofið hvar og hvenær sem er ef maður er lokaður inni.
„Já, ég var hannaður fyrir það að setja mig í einangrun. Ég gat bara sofið viku eftir viku eftir viku 18-20 tíma á sólarhring.“
Hver var lengsta einangrunin sem hann var settur í?
Við vorum grunaðir um að drepa samfanga okkar.
„Þótt þeir vilji ekki kalla það einangrun þá lenti ég og Börkur í einangrun í eitt og hálft ár. Við vorum bara tveir saman á gangi. Það var ekki kallað einangrun af því að við vorum lokaðir saman á gangi. Við vorum grunaðir um að drepa samfanga okkar og það er réttlátt þannig að það væri óforsvaranlegt að vista okkur meðal annarra fanga af því að við vorum grunaðir um að hafa drepið fanga. Ef ég væri úti á götu og hefði drepið örvhenta Vestfirðing með gleraugu þá væri ég samt vistaður með örvhentum, öðrum Vestfirðingum og öðrum mönnum með gleraugu.“
Þessu máli lauk með því að þið voruð sýknaðir.
„Við vorum sýknaðir bæði í héraði og Hæstarétti. Þeir gengu svo langt með þetta.“
Annþór fór með mál sitt til Evrópudómstólsins og tapaði því.
„Þar eru þeir til dæmis að horfa til Tyrklands. Evrópudómstóllinn er ekki að horfa til í hvernig samfélagi við lifum á Íslandi. Ef það hefði verið dæmt mér í hag; hvað heldur þú að margir Tyrkir ættu rétt á bótum í Tyrklandi?“