Stefán var skotinn til bana á Sæbraut í Reykjavík, 29. júlí árið 2007. Árásarmaðurinn, Tómas, notaði tuttugu og tveggja kalibera tékkneskan riffill til verksins. Stefán náði að forða sér áður en árásarmaðurinn skyti aftur og var honum hleypt inn í sendiferðabíl, sem var á leið framhjá skotstað.
Þegar Stefán var kominn upp í sendiferðabílinn tók ökumaður sendiferðabílsins eftir því að Stefán hreyfði sig ekki. Hann keyrði að Laugardalslaug þar sem hann og starfsmenn laugarinnar reyndu að koma Stefáni aftur til lífs meðan beðið var eftir sjúkrabíl. Stefán var úrskurðaður látinn á Landspítalanum stuttu síðar.
Árásarmaðurinn ók til Þingvalla þar sem hann svipti sig lífi með sama skotvopni. Skildi hann eftir bréf þar sem hann útskýrði gjörðir sínar. Tómas hafði myrt elskhuga fyrrum konu sinnar.
Skilnaðurinn þungbær
Skilnaður eftir 10 ára hjónaband lagðist svo þungt á Tómas að hann sökk niður í þunglyndi og afbrýðisemi. Hann var vistaður á geðdeild um tíma eftir skilnaðinn. Tómas ofsótti fyrrverandi eiginkonu sína og njósnaði um heimili hennar.
Fréttirnar komu þeim sem var rætt við mjög á óvart. Tómas hafði virst vera sléttur og felldur í samskiptum sínum við annað fólk. Einn viðmælanda lýsti honum sem týpískum bankastrák og kom þetta verulega á óvart.
Geðslag Tómasar mun hafa verið orðið svo þungt undir lokin að móðir hans mun hafa hringt til æskuvinar hans í Danmörku rétt fyrir morðið. Það gerði hún til að fá útskýringar á undarlegri hegðun hans sem var úr öllum takti við það jafnaðargeð sem áður hafði einkennt hann. Hann var meðal annars illa haldinn af svefnleysi og djúpu þunglyndi vegna skilnaðarins.
Áreitti fyrrum konu sína ítrekað
Tómas og konan hans höfðu verið gift í 10 ár þegar þau skildu rétt upp úr 2000. Saman áttu þau eitt barn. Stuttu eftir skilnaðinn munu Stefán og fyrrum kona Tómasar hafa tekið saman. Þau voru æskuvinir frá Sauðárkróki. Þá mun Tómas hafa byrjað að áreita fyrrum konu sína ítrekað. Þetta gerði hann hvort tveggja með því að hringja í tíma og ótíma sem og njósna um hús hennar. Ofsóknir Tómasar voru aldrei kærðar til lögreglunnar en ljóst er að þær urðu meiri með hverri vikunni.
Grunur lék á því að Tómas hafi beðið fyrir utan hús fyrrum eiginkonu sinnar aðfaranótt sunnudags. Óstaðfestar heimildir hermdu að hann hafi stungið á dekk bifreiðar Stefáns. Ekki var ljóst hvert Stefán var að fara þennan morgun, en hann var menntaður lífefnafræðingur og starfaði hjá Íslenskri Erfðagreiningu.
Talið er að Tómas hafi veitt Stefáni eftirför þennan örlagaríka dag. Tómas hafði með sér tékkneskan Winchester riffil. Svo virtist sem Tómas hafi endanlega misst vitið þennan morgun því hann skaut Stefán í brjóstið og endaði á að svipta sig lífi.
Heimildir:
Innlent. 29. júlí 2007. Myrti elskhuga fyrrverandi konu sinnar og svipti sig svo lífi. Vísir.
Valur Grettisson. 31. júlí. 2007. Tómas myrti Stefán í Reykjavík í gær: Myrti mann og skaut sig. Dagblaðið Vísir – DV.