Arnar Gunnlaugsson hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari karla í knattspyrnu en Arnar hefur á undanförnum árum þjálfað Víking með mjög góðum árangri.
Arnar var sjálfur landsliðsmaður á sínum yngri árum og spilaði 32 landsleiki fyrir hönd Íslands. Þá var hann atvinnumaður í mörg ár erlendis og spilaði meðal annars í hollensku og ensku úrvalsdeildunum.
Fyrstu leikir íslenska landsliðsins undir stjórn Arnars verða umspilsleikir við Kósovó í mars um sæti í B-deild Þjóðadeildar UEFA. Fyrri leikurinn verður á Fadil Vokrri Stadium í Pristina 20. mars og seinni leikurinn á leikvangi Murcia á Spáni, Stadium Enrique Roca.
Kostar slatta fyrir KSÍ
„Við erum mjög ánægð með niðurstöðuna. Það eru spennandi tímar framundan hjá íslenska landsliðinu og krefjandi verkefni fyrir nýjan þjálfara í mars, sem Arnar byrjar strax að undirbúa. Við höfum mikla trú á Arnari og hlökkum til að vinna með honum næstu árin, og vonandi sem lengst,“ sagði Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ, um ráðningu Arnars.
„Ég er auðvitað bara fullur tilhlökkunar að takast á við þetta spennandi og krefjandi verkefni. Það er mikill heiður og líka mikil ábyrgð sem fylgir því að vera landsliðsþjálfari Íslands. Ég er klár í það verkefni,“ sagði Arnar sjálfur um nýja starfið.
Fótbolti.net hefur greint frá því að KSÍ muni þurfa að borga Víkingi 10-15 milljónir til að fá Arnar til starfa.