Arnar Grant segir að Ari Edwald, Hreggviður Jónsson og Þórður Már Jóhannesson hafi átt frumkvæðið að því að bjóða Vítalíu Lazarevu fé. Arnar segir ekki rétt að hafi keypt þögn manns með því að bjóða upp á kynferðislega greiða frá henni. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.
Arnar lýsti upplifun sinni af sumarbústaðaferðinni afdrifaríku í Skorradal í október 2020. „Við vorum ekki par, ég þekkti hana mjög lítið þarna. Það var mikil ölvun í gangi, ég er ekki sérfræðingur í svona málum og get ekki sagt nákvæmlega til um hvað er brot og hvað er ekki brot. En vissulega voru menn óviðeigandi og gengu allt of langt í þeim efnum,“ sagði Arnar.
Hann fullyrðir að allir sem voru í bústaðnum hafi verið naktir í heitum potti. Þar hafi allir snert alla. Arnar segir að honum hafi ofboðið og boðið Vítalíu að fara með sér. Eftir það hafi nokkrir úr hópnum áreitt Vítalíu. Þar á meðal einn, sem setti höndina á milli fóta hennar í hennar óþökk.