Árni Indriðason, menntaskólakennari og sagnfræðingur, er fallinn frá en mbl.is greinir frá andláti hans. Árni var 74 ára gamall.
Árni fæddist í Reykjavík árið 1950 og ólst upp á Seltjarnarnesi. Hann fór í MR og lauk þaðan stúdentsprófi árið 1970 og kláraði sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1977. Sama ár hóf Árni að kenna sögu í sínum gamla menntaskóla og gerði það allan sinn starfsferil og var hann ávallt einn af vinsælustu kennurum skólans.
Árni var einnig mikill íþróttagarpur en hann keppti í handbolta fyrir Víking Reykjavík og Gróttu og spilaði 60 landsleiki með íslenska landsliðinu í íþróttinni. Þá var hann um stund fyrirliði liðsins. Síðar hóf hann þjálfun í handbolta og þótti standa sig vel í þeim störfum sem hann tók sér fyrir hendur.
Árni lætur eftir sig eiginkonu og fjögur börn.