Árni Tryggvason, fyrrverandi leiðsögumaður, segir að það hafi verið tímaspursmál hvenær ferðamenn á Íslandi myndu lenda í mikilli hættu vegna slæmra vinnubragða ferðaþjónustufyrirtækja en Árni skrifaði pistilinn í ljósi frétta um slysið í Breiðamerkurjökli þar sem minnsta einn hefur látið lífið og tveggja er ennþá saknað.
„Þar kom að því! Á árunum eftir hrun, þegar lítið var að gera í mínu vanalega starfi tók ég tvö ár sem leiðsögumaður. Mest í jöklaleiðsögn. Í þessum ferðum ofbauð mér oft krafan um að fara með farþegana í sem ævintýralegustu aðstæðurnar,“ skrifar Árni í pistli á samfélagsmiðlinum Facebook.
„Ef við fórum ekki með fólk í „tvísýnu“ þá vorum við ekki að standa okkur. Þarna starfaði ég fyrir fyrirtæki sem þóttist vera framarlega í öryggismálum og þótti til fyrirmyndar. Á sama tíma voru íshellaferðirnar að hefjast og eftir að hafa komið á staði eins og undir fallega ísboga, brúnir eða hella sem voru síðan hrundir daginn eftir langaði mig ekki til að vera í þessum bransa. Vildi ekki vera leiðsögumaðurinn sem missti hóp í íshruni. Ég tjáði mig um þessi öryggismál og var hótað,“ og segir Árni að jöklar séu óstöðugir og breytist frá degi til dags.
„Það er í lagi að vanir menn fari þangað á eigin forsendum og ábyrgð. En að fara í svona óstöðugt umhverfi með algjörlega óvant fólk er mikið ábyrgðarhlutverk sem því miður fæst (ef nokkur) ferðaþjónustufyrirtæki geta staðið undir.
Hugsum málin upp á nýtt.
Ferðaþjónustan á ekki að vera áhættustrafsgrein. Hvorki fyrir starfsfólk né farþega,“ skrifar Árni að lokum en hann hefur gagnrýnt íslenska ferðaþjónustu harðlega í mörg ár og sagt sumar jöklaferðir á landinu vera fúsk.